Ofreynsla

Í síðustu viku datt mér í hug að prjóna mér skokk og gerði það. Mér fannst mér liggja á og var auk þess að klára ullarsokka svo ég sat við 12-15 tíma á dag, 4 daga í röð, tók aðeins pásur til að pissa og borða. Skokkurinn varð svo flottur að ég byrjaði umsvifalaust á öðrum. Á fjórða degi var hann næstum tilbúinn en þá var ég orðin svo aum í hægri hendi og úlnlið að ég gat alls ekki prjónað hratt. Ég ákvað að taka mér dagsfrí frá prjónaskapnum en þegar ég ætlaði að byrja aftur í morgun, hafði úlnliðurinn á mér bólgnað upp. Höndin á mér er marin og mig verkjar upp í olnboga.

Hér eru sýnishorn af vettlingalagernum mínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

.

 

 

 

Svona klukkuprjónsvettlingar eins og þessir brúnu þóttu mér langbestir þegar ég var lítil og strákarnir mínir vildu þá líka helst.

 

Þessi lambhússhetta á 2ja-3ja ára er yndilslega hlý, úr léttlopa og fóðruð með flísefni. Ég seldi konu sem ég vann með 3 mismunandi lambhússhettur fyrir jólin og fékk loforð um myndir af barninu með þær en er enn að bíða eftir myndunum.

 

Þessi er líka úr léttopa og passar á 6-8 ára barn.

Það er hægt að sjá meira af því sem við frænkurnar höfum verið að dunda við hér. Ég tek aldrei myndir sjálf en þarf helst að fara að bæta úr því. Það er náttúrulega ekkert vit í að liggja með lager sem enginn veit af. Vonandi kemur mynd af skokknum inn fljótlega og vonandi verð ég fær um að klára hinn skokkinn um helgina. Það hefði ekki hvarflað að mér að óreyndu að hægt væri að ofreyna sig á prjónaskap, en héðan í frá mun ég taka mér pásu á 90 mínútna fresti. Þetta er náttúrulega bilun.

Best er að deila með því að afrita slóðina