Staðan

Þessi vefbók hefur ekki verið almennilega virk í heilt ár, ég get eiginlega ekki útskýrt hversvegna. Fyrir þá sem ekki eru á fésinu er hér smá samantekt:

Ég lokaði Nornabúðinni í mars 2009 og fór til Danmerkur. Var um tíma hjá Hullu systur minni sem býr úti í sveit, nánar tiltekið í sveitafélaginu Sönderborg á Suður-Jótlandi, ásamt eiginmanni, þremur gaurum og sæg af kanínum, köttum, naggrísum, hænsnum og öndum, og 7 kindum (þær eru reyndar bara 5 núna, við átum tvær). Það er 20 mínútna akstur héðan og yfir til Þýskalands og þar er kjöt, áfengi og súkkulaði töluvert ódýrara en hér.

Ég fékk vinnu á elliheimilinu sem systir mín vinnur á. Það er í litlu þorpi sem heitir Bovrup og tilheyrir Aabenraakommúnu. Bovrup er í aðeins 3,5 km fjarlægð frá Hullusveit svo það hentaði mér vel en seinna um sumarið var ég svo heppin að fá íbúð í Bovrup en ég varð reyndar að beita göldrum til þess.

Bjartur og Lífsblómið hans höfðu aðsetur hjá mér í nokkrar vikur á meðan Bjartur ruslaði upp einu Sumarhúsi í næsta þorpi en ekki tókust með okkur ástir.

Bjartur og Lífsblómið fluttu út um haustið en Norna og Anja fluttu inn í staðinn enda þótt ég hafi verið alveg ákveðin í að fá mér aldrei gæludýr.

Mér leið ekki vel á elliheimilinu. Vinnan er í sjálfu sér ágæt en ég þoli ekki svona kerlingasamfélag og það er óvenju slæmur andi á þessum vinnustað. Ég sagði upp um áramót. Hef verið að skrifa og prjóna síðan og hef engan áhuga á að fara að vinna fyrir einhvern annan en sjálfa mig. Ýmislegt í bígerð sem ég get ekki skrifað um strax.

Best er að deila með því að afrita slóðina