Sveitaferð

Vér nornir eyddum helginni í sveitasælunni hjá Hörpu.

-Sváfum mikið, drukkum meira og átum mest.

-Ég smurði á mig c.a. 2 lítrum að aðskiljanlegustu kremum og nú eru hendurnar á mér svo fínar að ég tími varla að skeina mig.

-Fórum í kaupstaðarferð og fjárfestum í því dásemdar bókmenntaverki „Í hamingjuleit“ sem segir frá ríkri en óhamingjusamri eiginkonu sem flýr ofbeldishneigðan eiginmann þegar hann hyggst senda barnið hennar á heimavistarskóla. Við komumst ekki svo langt að lesa endinn. Reyndar komumst við aðeins í gegnum fyrsta kaflann (þá var ælulyktin í gámnum orðin svo stæk að við neyddumst til að hætta) en þá þegar voru komnar fram kenningar um að hin fagra en lamda Audrey Colby og ábyrgðarfulli, myndarlegi saksóknarinn Nicholas Wakefield myndu trúlofast á síðustu blaðsíðu.

-Göldrum var beitt. Um leið og við renndum inn á svæðið á föstudagskvöldið fékk Anna leyndarmálið í hausinn. Álagabíll stóð á hlaðinu. Fullt tungl í þokkabót. Þetta hlaut að vera tákn. Okkur bar ekki alveg saman um það í fyrstu hvernig táknið skyldi túlkað en niðurstaðan varð sú að Kiddi klumpur var settur í skítugan plastpoka og honum drekkt í Hreðavatni. Einneigin helguðum við Hörpu nýtt húsnæði. Hörpu leist að vísu ekkert á þá hugmynd að hlaupa nakin um svæðið, galandi og seyta þvagi um víðan völl, sem best hefði tryggt árangur, en hver segir að ekki megi brúka blóði stokkna birkigrein og glas undan LGG til galdrakúnsta?

-Kærar þakkir fyrir dásamlega fríhelgi stelpur. Ég er úthvíld. Var alveg búin að gleyma þeirri tilfinningu.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Sveitaferð

  1. ——————————————–

    Kærar, kærar þakkir, elsku Eva fyrir dásamlega helgi. Galdrar og álög… ég er til í að pissa í hvert horn fyrir slíkt 😉
    Frábær helgi, takk fyrir mig 😀

    Posted by: Harpa | 3.06.2007 | 23:09:32

Lokað er á athugasemdir.