Búið!

Loksins búin að tæma íbúðina og þrífa með dyggri aðstoð múgs og margmennis. Ég hef aldrei fengið svona marga til aðstoðar við flutninga. Reyndar vissi ekki einu sinni að ég ætti svona marga vini. Það sem meira er, ég þurfti ekki einu sinni að biðja um hjálp, mér var boðin aðstoð úr aðskiljanlegustu áttum. Svona góð hjálp er auðvitað ómetanleg. Ekki bara vegna þess hvað það sparar manni mikla vinnu og álag, heldur líka af því að það lýsir svo mikilli góðvild og umhyggju að bjóðast til að leggja á sig erfiða aukavinnu bara af almennilegheitum.

Ég ætlaði reyndar að kaupa flutningsþrif en þar sem fyrrum mágkonur mínar vildu endilega taka verkið að sér frítt, slapp ég við það. Ekki nóg með það heldur eldaði Helga ofan í mig líka, tvo daga í röð og Mæja fór heim með allar tuskurnar til að þvo þær fyrir mig. Ég kunni reyndar ekki við að sitja og horfa á þær þrífa svo ég eyddi deginum í að skrúbba með tannbursta í kringum eldavélartakka og ljósarofa. Þessi flutningsþrif marka kaflaskil í lífi mínu svo það er kannski bara betra að hafa gert þetta almennilega. Í dag þreif ég nefnilega heimili mitt í síðasta sinn í þessu jarðlífi. Ég ætla semsé að gefa sjálfri mér hreindýr í afmælisgjöf.

Ég er samt alveg til í að þrífa fyrir aðra ef svo ber undir, t.d. þegar þeir sem mér er annt um eru að flytja. Ég er handónýt í þungaflutningum en ég get alveg borið eitthvað létt, t.d. dúnsængur. Ég get líka gætt barna og svo kann ég á stálull og gólfþvegil.

Á morgun fer ég í helgarfrí í sveitina. Ætla að lakka á mér neglurnar, drekkja andlitinu á mér í maska og borða eitthvað viðbjóðslega óhollt ásamt fríðum flokki geðþekkra galdrakvenna. Ég er búin að hlakka til þess í heilan mánuð.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Búið!

  1. ————————————————

    Gratulerar!

    Posted by: H | 1.06.2007 | 18:49:35

    ———————————————–

    Þetta var ég, einhverra hluta vegna datt restin af nafninu út. Ekki að það skipti sköpum, en ég skrifa aldrei undir dulnefni, sama hvað það er ómerkilegt.

    Posted by: Harpa J | 1.06.2007 | 18:51:34

Lokað er á athugasemdir.