Mörg drösl

Í hvert sinn sem ég flyt öðlast ég nýja trú á mannskepnuna.

Mér þykja flutningar alltaf erfiðir og kvíðvænlegir og ég hef fyrir satt að ég sé ekkert ein um það. Ég hef enga ástæðu til að halda að öðrum þyki skemmtilegt að bera húsgögnin mín og bókakassana, skrúfa niður ljós, festa upp hillur og allt annað sem fylgir þessu veseni. Samt er alltaf nóg af fólki boðið og búið að hjálpa mér á allan hátt. Oftast fólk sem ég hef aldrei hjálpað við flutninga.

Í augnablikinu er ég á „drottinnminndýri-hvaðáégaðgeraviðþettadrasl?“ stiginu. Það sem er eftir er eitthvað sem ekki er forsvaranlegt að henda en er einhverveginn ómögulegt að pakka niður. 2 ljósaperur, pakki af stálull, krukka af einhverju karríjukki, ónotaður tannbursti, jólakúla, silfurskeið, eldspýnastokkur, pakki af stjörnuljósum, 1/2 pakki af mjólkurkexi, munnharpa, hleðslutæki fyrir síma, skarttengi, augnskuggi, sjómannahandbókin, smjörpappír, aktívistamyndband og margt fleira sem lenti ekki í viðeigandi kössum. Einhvernveginn bjánalegt að pakka þessu vandlega saman í kassa. Ég verð örugglega búin að kaupa nýja stálull áður en ég opna kassa sem er merktur „alls konar drösl“. Darri yrði aftur á móti miður sín ef hann fyndi ekki sjómannahandbókina og í ágúst verð ég örugglega búin að gleyma því að hún sé í kassa sem er merktur á þann hátt.

Ég veit ekki ennþá hvernig á ætla að koma fyrir öllum þeim nauðsynjahlutum sem ég er búin að bera niður á Vesturgötu. Leigusalinn minn, Góði Hirðirinn, er dásamleg manneskja sem hefur reynst mér afskaplega vel en hirðusemi hans fyllir hátt í 7 fermetra, jafnvel þótt við séum búin að rífa í frumeindir allar hillurnar, borðin og skápana sem hann hefur bjargað frá glötun síðustu áratugi.

Ég er nú þegar búin að losa mig við dót sem svarar heilli búslóð. Sumt af því fór til góða hirðisins, altso þessa hjá Sorpu. Góði Hirðirinn minn hefur ekki hugmynd um allar þær gersemar sem hann hefði getað bjargað ef ég hefði gefið honum tækifæri til þess. Uppþvottavélin er enn eftir. Fín vél. Gömul en lítur vel út og þvær vel. Föl gegn því að verða sótt, eigi síðar en á hádegi á fimmtudag. Viljiði bara plííís ekki segja Góða Hirðinum mínum frá henni.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Mörg drösl

 1. ——————————————————

  enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur…

  Posted by: baun | 30.05.2007 | 10:28:57

  ——————————————————

  Síðast þegar ég flutti fór 1.1 tonn (já það var mælt uppí sorpu) á hauganna. Það er alveg ótrúlegt hvernig þetta safnast fyrir 🙂

  Posted by: Guðjón Viðar | 30.05.2007 | 19:41:10

  ——————————————————

  Þegar maður skrifar innihaldslýsingu utan á pappakassa, hver segir að hún megi bara vera nokkur orð? Ég setti einu sinni kassa upp á loft og skrifaði utan á hann „gömul gleraugu, dómaraflauta, sparibaukur, lítill spegill, vasaljós, stimplar, Þjóðvinaalmanök 1993-1996, leiðbeiningar með Ikea-hillum, filmur, kerti, skóreimar“ og eitthvað fleira. Maður hefur listann auðvitað bara eins langan og maður vill.

  Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 31.05.2007 | 13:57:21

  ——————————————————

  alvöru stuðið verður þegar þú flytur inn í nýju íbúðina. það er gaman að finna hlutum stað, sjá hvernig líf manns passar í nýjar umbúðir.

  annars velti ég fyrir mér hvers vegna vésteinn geymir leiðbeiningar með ikeahillum…

  Posted by: inga hanna | 31.05.2007 | 20:05:21

  ——————————————————

  Ég hef fyrir satt að Vésteinn geymi allt, einkum og sér í lagi gömul dagblöð.

  Jamm, það er skemmtilegra að flytja inn en út, sérstaklega þegar maður er að flytja í dásamlega fallega íbúð. Ég hlakka svo til þess.

  Posted by: Eva | 31.05.2007 | 23:12:32

Lokað er á athugasemdir.