Desemberkvíðinn í hámarki. Þótt ég hafi nákvæmlega engu að kvíða. Það eina sem ég þarf að gera sem mér finnst erfitt er að fara í Bónus (Darri verður í sveitinni fram á Þorláksmessu svo ég get ekki sent hann) og svo auðvitað að missa svefn. Ég hélt að ég væri vel birg af öllu í byrjun aðventu en sit uppi með sama lúxusvandamál og í fyrra, tómar hillur í lok dags. Ég veit ekki hvar þetta fyrirtæki væri ef Saumfríðar nyti ekki við en þótt hún sitji við vélina öll kvöld hef ég nóg að gera við að mála galdrastafi á allan fjandann, brenna birkiplötur og vigta jurtir fram á miðja nótt.
Annars er ég alltaf heltekin af þreytu og kvíða síðustu viku fyrir vetrarsólstöður, jafnvel þótt sé ekkert óvenjulegt álag á mér, jafnvel þótt mitt umhverfi sé sennilega streitulausara en flestra annarra Íslendinga og jafnvel þótt ég verði í fríi öll jólin. Veit ekki alveg hvernig á því stendur en ég er yfirleitt búin að ná mér á Þorláksmessu, einmitt þegar allir aðrir eru gjörsamlega að fara á límingunum. Og það er alveg sama hvað ég er vel undirbúin og hef mikinn stuðning, þessi tími er alltaf sama helvítið fyrir sálina í mér.
Sum sár gróa bara einfaldlega ekki.
————————————
er flótti lausnin?
Posted by: baun | 18.12.2006 | 8:24:25
————————————
Verð að taka undir með þér þarna. Get samt ekki útskýrt nákvæmlega hvað veldur……en ég veit þó að þetta er ástand sem ég hef komið mér í til margra ára. Vonandi hverfur þetta á Þoddlák.
Anda inn um nefið og út um tærnar.
ps. Er einmitt búin að vera með ísklump í maganum vegna fyrirhugaðrar Bónusferðar….úff.
Posted by: lindablinda | 18.12.2006 | 9:20:58
————————————
Flótti gæti verið ágæt lausn ef væri hægt að skýra þetta ástand með skammdeginu eða jólatrjánum. Ég held bara að þótt ég tæki upp á því að eyða desember í sólarlöndum, kæmi þessi árlegi kvíði bara upp í nóvember eða janúar í staðinn.
Posted by: Eva | 18.12.2006 | 15:54:41
————————————
meinti frekar svona flótti þar sem maður situr í hnipri með banana í eyrunum, rær fram í gráðið og puðrar með vörunum lagstúf frá því maður var á róló.
svoleiðis líður mér. nema aðeins verr.
Posted by: baun | 18.12.2006 | 20:32:06