Skógarhöggsmaðurinn kominn í helgarfrí

-Hann spurði hvort við gætum ekki tekið nokkrar spýtur fyrir mömmu í leiðinni, sagði Mæja, dálítið skrýtin á svipinn og opnaði bílinn sem reyndist kjaftfullur af trjám og greinum.

Sonur minn hefur ekki setið auðum höndum undanfarin kvöld. Bar heilan skóg inn í búðina og fór mikinn í lýsingum sínum á notagildi visinna birkigreina og lifandi víðis.
Ekki fannst honum þó óskalistinn minn í takt við tilefnið.

-Uppstoppaðan hrafn! sagði hann með fyrirlitningu. Hverskonar norn ert þú eiginlega? Ef þú hendir bara út saltkjötsbita sem er aðeins farinn að slá í á hverjum degi, þá koma lifandi hrafnar sjálfviljugir.
-Já ég hugsa að fólkið í húsinu yrði voða hrifið af því að hafa úldið saltkjöt og hrafnager fyrir framan útidyrnar. Svo kæmu blessaðar svartrotturnar líka. Ég skil hvað þú átt við elskan en hugmyndin var sú að fá fólk hingað inn til að versla en ekki að fá alla nágrannana upp á móti okkur.
-Mamma, heldur þú virkilega að nornir 17. aldar hafi haft áhyggjur af áliti nágrannanna?
-Haukur minn, á 17. öld var fólk brennt á báli fyrir fjölkynngi og fordæðuskap. Ég hef að vísu ekki áhyggjur af því að Rannsóknarrétturinn komi askvaðandi og reisi bálköst niðri á Ingólfstorgi en hinsvegar eru góðar líkur á að heilbrigðiseftirlitið kæmi og lokaði sjoppunni ef bærust kvartanir út af úldnu kjöti, hænsablóði og rottum og þá munu ekki einu sinni rottuvinir versla við mig.

Haukur dæsti og gaf fyrirmæli um að víðirinn skyldi liggja á floti í vatni yfir nótt svo hægt yrði að nota hann til að binda birkið upp.

-Þetta eru 4 metra há tré Haukur, þetta kemst ekkert í baðkarið, mótmælti ég en einhvernveginn tókst honum samt að sannfæra mig um að það væri móðgun við góðvættir goðheima að nota snæri til bindinga á meðan víðirinn þornaði upp á gólfinu.

Nú skaga víðgreinarnar úr baðkarinu og upp undir loft á baðinu hjá mér og ef ég ætla að komast í sturtu sé ég ekki annað ráð en að geyma þær í holinu á meðan.

Stundum finnst mér góðvættir goðheima stjórna full miklu í lífi mínu.