Fordæði

Skömmu eftir áramót kastaði ég galdri á dusilmenni nokkurt sem var á góðri leið með að drepa vinkonu mína úr leiðindum. Af einhverri illskiljanlegri ástæðu hélt vinkona mín að maðurinn væri ekki eins heimskur og hann lítur út fyrir að vera. Reyndar hélt hún að innst inni (mjög djúpt inni) slagaði hann hátt uppi í meðalgreind og þessvegna tækist henni á endanum að koma honum í skilning um að hann bæri ábyrgð á sinni eigin eymd. Hún gerði sér m.a.s. vonir um sökum eðlilegrar heilastarfsemi stæði dusilmennska hans til bóta með hækkandi sól og alltumfaðmandi kærleika hennar.

Ég vissi betur enda var það ekki ég sem var ástfangin með þeirri rökhyggjustíflu sem því fylgir. Ég reit því rúnir, gól seið og lagði það á dusilmennið að það kæmi upp um heimsku sína með einhverju dæmigerðu karlmannlegu tiltæki. Um tíma hélt ég að ég hefði gert eitthvað vitlaust þar sem galdurinn virtist hafa öfug áhrif; þ.e.a.s. mannfýlan hegðaði sér heimskulega og kom þannig upp um vesældóm sinn.

Tiltæki eymingjans dugði vinkonu minni til að átta sig á því að hann væri henni þrándur í götu en hún var þó enn ekki fyllilega sannfærð um að hann væri í þokkabót með gat í heilanum enda var uppátækið svosem ekkert heimskulegra en búast má við af limveru.

Svo í morgun þegar ég opnaði póstinn minn blasti við mér óræk sönnun fyrir því hve foráttuheimskur þessi vesælingur hlýtur að vera. Ég var að vísu löngu búin að átta mig á því að maðurinn er bæði lítilmenni og með heilabú í minni kantinum en ég hélt að hluti af hugmynd minni um heimsku hans rætti kannski rætur að rekja til minnar eigin afbrýðisemi og fordóma.

Nú er semsagt komið í ljós að eymingi þessi er auk þess að vera bæði ljótur og leiðinlegur á mörkum þess að vera vangefinn.

Hún er ekki skrárri músin sem læðist en sú sem stekkur. Stór spurning hvort réttlætanlegt sé að nýta annan eins falla til gandreiðar.
Mikil ósköp er skrattanum skemmt.

Best er að deila með því að afrita slóðina