Ekki fyrir veikt fólk að standa í þessu

Mér er næst að halda að megintilgangur þess að halda úti bráðaþjónustu við sjúka og slasaða sé sá að venja fólk af því að leita til læknis á kvöldin og um helgar.

Þegar ég kom heim seint í gærkvöld var heimasætan fárveik, með háan hita og kveinandi af verkjum í baki og brjóstholi, gat varla staðið í fæturna. Reyndar enganveginn ferðafær en ég druslaði henni samt upp á læknavakt -og beið.

Telpan er 15 ára, var treg til að afklæðast og og brást við með dæmigerðum unglingsskrækjum þegar læknirinn potaði í aumu svæðin. Auk þess kom fram strax í upphafi samtalsins að hún hefði vaknað veik síðla dags þar sem hún hefði verið óhóflega lengi á djamminu nóttina áður. Þessi læknir er sennilega haldinn skyggnigáfu því það tók hann ekki nema 20 sekúndur að komast að þeirri niðurstöðu að einkennin væru „undarleg“, verkir sem virtust ekki staðbundnir, hræðsla við snertingu og stífur kviður bentu til streitu. Sjálf hef ég nú sjaldnast upplifað veikindi sem eitthvað sérlega afslappandi. Hann spurði, án þess að vottaði fyrir samúð, mun meira út í skemmtanalíf hennar nóttina áður en líkamleg einkenni. Það þurfti engan lækni til að sjá að stúlkan var fárveik og þótt umrætt djamm hafi alls ekki átt sér stað með mínu samþykki fannst mér þetta fremur óviðeigandi áhersla. Ég spurði lækninn þessvegna hvort væri algengt að tilfinningaleg áföll hefðu 40 stiga hita í för með sér. Hann svaraði því til að líklega væri hún með einhverja sýkingu, vísaði okkur á bráðamóttökuna í Fossvogi og ráðlagði henni að segja frá því ef hún hefði „lent í einhverju“.

Á leiðinni í Fossvoginn sagði hún mér að fyrra bragði að hún hefði ekki „lent í“ neinu óþægilegu utan því að vera hundskömmuð fyrir að virða ekki reglur um útivistartíma.

Í Fossvoginum tók við löng bið enda þótt enginn væri á biðstofunni og eftir að stelpugreyið hafði húkt hálfmeðvitundarlaus og frávita af kvölum á hörðum stól í 40 mínútur, fengum við að vita að sálgreinirinn í Kópavoginum hefði vísað okkur á rangan stað. Ég átti semsé að fara með hana á bráðmóttöku barna á Hringbraut. Krakkinn var, fyrir utan veikindin, orðin úrvinda af þreytu og ef ég hefði ekki óttast að hún hefði einhverja sataníska nýrnasýkingu hefði ég gefist upp og farið með hana heim.

Á Hringbrautinni tók við ennþá lengri bið í hnipri á hörðum bekk þar sem var útilokað að hún gæti látið fara þolanlega um sig. Bið eftir hjúkrunarfræðingi, bið eftir verkjalyfjum, bið eftir blóðprufum, bið eftir lungnamynd, bið eftir niðurstöðum.

Ferlið frá því að ég mætti á læknavaktina og þar til ég fór með hana út af barnaspítala Hringsins, tók rúmar 4 klukkustundir.

Ég ráðlegg hverjum þeim sem þarf að leita bráðaþjónustu heilbrigðiskerfisins að taka með sér matarbirgðir, góða dýnu og sjónvarp. Eða þá að drífa sig þangað á meðan sjúklingurinn er við nógu góða heilsu til að nota þá taktík sem iðulega hefur reynst best til að fá skjóta og góða þjónustu hjá sýslumannsembættum, skattheimtunni, Tryggingastofnun og öðrum stofnunum „kerfisins“; að æsa sig upp í ofsareiði, beita hávaða, munnsöfnuði, hótunum og helst persónulegum árásum.

Semsé, ekki fara með börnin þín til læknis þegar þau eru veik og allra síst ef þau eru sæmilega kurteis, prófaðu frekar þegar þau eru í frekjukasti. Ekki heldur segja þeim að ástæðan fyrir óþægindunum og biðinni sé sú að tilgangur heilbrigðiskerfisins sé sá að bjarga mannslífum en ekki að láta fólk hafa það huggulegt. Ef þau trúa því má búast við að þau muni láta þessa meðferð yfir sig ganga alla ævi. Segðu þeim frekar að heilbrigðiskerfið sé eitt stórt samsæri gegn þeim. Það er kannski svolítið leiðinlegt að biðja um þjónustu fyrir bandóðan ungling í móðursýkiskasti en með þeirri aðferð er allavega möguleiki á því að þú fáir viðunandi nætursvefn og að barnið fái næga hvíld til að vera fært um að vera eitt daginn eftir. Réttar aðferðir gætu því tryggt þér einn, annars ónýtan vinnudag til að greiða lyfjakostnaðinn.

Amma mín sáluga sem varði drjúgum hluta ævinnar á sjúkrahúsi átti það til að segja, þegar hún veiktist; Í Guðsbænum ekki leggja mig inn, ég hef bara enga heilsu til þess að liggja á spítala núna.
Ástandið hefur víst lítið breyst.

Best er að deila með því að afrita slóðina