Markaðslögmál

Frá dyrunum var ekki að sjá að neinn væri í afgreiðslunni en einhver bauð nú samt góðan dag svo ég gekk að borðinu. Hún sat fyrir innan það og leit varla upp en hélt áfram að mata ungbarn sem sat þar í kerru á barnagraut.
-Ég ætla rétt að klára að gefa henni að borða, sagði hún svo án þess að vottaði fyrir nokkrum afsökunartón í röddinni og án þess að líta á mig.

Hún lauk við að mata barnið og afgreiddi mig svo af röggsemi en fullkomnu áhugaleysi. Hitaði kleinuna í örbylgjuofninum án þess að spyrja hvort ég kærði mig um það, kjáði framan í barnið og virtist varla taka eftir því að ég væri þarna. Ég hugsaði með mér að þessi kona ætti aldrei eftir að selja svo mikið sem kaffibolla út á sjálfa sig.

Samt var eitthvað svo yndislegt við hana. Eitthvað svo eðlilegt við að láta barnið ganga fyrir. Eitthvað svo fallegt að vera uppteknari af barninu en vinnunni, enda þótt hún eigi staðinn líklega sjálf og ætti því samkvæmt öllum markaðslögmálum að reyna að heilla kúnnann.

Í morgun fór ég þangað aftur. Ekki af því að kaffið sé svo einstakt, ekki af því að engin huggulegri kaffihús séu á höfuðborgarsvæðinu, ekki af því að staðsetningin henti mér og allra síst af því að mér hafi þótt líklegt að hún myndi eftir mér eða kærði sig um félagsskap yfirhöfuð. Ég var bara forvitin um hana. Velti því fyrir mér hvort eitthvað hefði legið þungt á henni eða hvort hún væri bara svona, og fannst einhvernveginn eins og ég ætti erindi við hana. Sem ég átti alls ekki.

Þar með hefur hún selt amk einn kaffibolla, bara út á sjálfa sig.

Best er að deila með því að afrita slóðina