Karlmennska er ákveðin fötlun

Karlmennska er ákveðin fötlun. Í rauninni ættu 80% karlmanna að vera á fallabótum og í endurhæfingu eða einhverskonar meðferð.

Ég tók heimilið í gegn í gær, líka fataskápana og veggi og allt, var rosadugleg og þegar ég settist niður langaði mig í nammi. Átti ekkert og nennti ekki út svo ég gúllaði í mig smávegis Amarula. Það er nú svosem ekkert einsdæmi að ég taki til heima hjá mér og þessi líkjör er ekki nema 17% svo ég skil ekki alveg hvað gerðist en það eiginlega slokknaði á líkamsstarfsseminni, var hreinlega eins og ég væri gripin tímabundinni bráðasíþreytu. Samt var ég ekki ölvuð og ekki baun sifjuð. Mig dauðlangaði að eiga vitræn samskipti við heimskara kynið en það hefði skilað svipuðum árangri að bjóða mér upp á kynlíf eins og að ætlast til að ég tæki nóttina í að rölta upp Mount Everest.

Ég sendi öllum fatlafólum í gemsanum mínum sms þess efnis að viðkomandi væri velkominn í heimsókn hvenær sem væri nætur svo framarlega sem hann sætti sig við að sitja á rúmstokknum og spjalla við mig (nei sæti minn ekki þér auðvitað en þú ert heldur enginn falli, pabbi fékk ekki svona boð heldur). Ég fékk nokkur fötluð svör en enginn lét sjá sig.

Ef ég væri með tveggja tommu sítt hnakkaspik og vörtu á nefinu sem hár yxi út úr, greindarvísitölu undir frostmarki, byggi á Trékyllisvík og lyktaði eins og fjóshaugur og hefði sent sömu mönnum, í stað þessara boða, sms; „vil ríða!“ þá hefði skapast umferðaröngþveiti á leiðinni frá Höfuðborgarsvæðinu til Trékyllisvíkur.

Eins og ég get nú haft ljómandi gaman af riðliríi, þá finnst mér stundum svekkjandi hvað karlmannsheilinn virðist takmarkaður þegar kemur að samskiptum kynjanna. Þeir geta reist hallir, stjórnað synfóníuhljómsveitum og unnið Nóbelinn fyrir vísindaafrek en komi þeir nógu nálægt konu til að finna af henni lyktina, eða ef þeir hafa hugboð um að kynlíf sé í boði einhversstaðar er engu líkara en að slokkni á heimastarfseminni í þeim og sprellinn öðlist sjálfstæðan vilja. Hvað er það annað en fötlun?

Mig vantar svosem ekki karlmann á heimilið. Hef nóg með óþrifin af horngrýtis páfagauknum sem flögrar skrækandi og skítandi um íbúðina og nartar í augnbrúnir heimaganga sem eru ekki enn búnir að læra að berja hann frá sér. Ég bíð bara eftir því að hann flæki klærnar svo hressilega í krullum uppfinningamannsins að við þurfum að klippa hann burt. En einhvernveginn trúi ég því alltaf í barnslegri einlægni minni, þrátt fyrir að reynsla mín ætti að hafa afsannað það fyrir löngu, að til séu karlmenn sem eru eitthvað annað og meira en ofvaxnir páfagaukar.

Enginn hefur orðað það sem ég vildi sagt hafa betur en Alanis Morissette;

And all I need now is intellectual intercourse
a soul to dig the hole much deeper 

Best er að deila með því að afrita slóðina