Dramlaust á ilmsápustöðinni

Zorglúbb er í bænum og kom í heimsókn í dag. Vííí! Hann tilheyrir þessum þrönga flokki karlmanna sem ráða við að sitja á rúmstokknum, án þess að reikna átómatískt með einhverju falleríi. Sem styður þá tilgátu mína að hann sé alls ekki falli. Svo er hann líka ágætt skáld og það er ekki leiðinlegt.

Sendi Zorglúbb samt ekki sms í gærkvöld. Hann er bíllaus í bænum, ekki nógu hávær til að halda mér vakandi og það hefði bara ekki verið fallega gert að stefna honum á rúmstokkinn vitandi að ég lognaðist sennilega út af eftir 15-20 mínútur. Höfum að vísu deilt rúmi einhverntíma fyrir löngu en það var tvíbreitt rúm og hægt að sofa í því án þess að koma hormónastarfseminni í gang. Dagurinn varð allavega mjög ánægjulegur.

Þetta eru góðir dagar en ég er samt ekkert ær af gleði. Það er ekki sanngjarnt af mér því ég fæ eiginlega allt sem ég vil. Kannski ekki allt í einu samt. Svolítið eins og að dauðlanga í mjólk og súkkulaðiköku og fá kökuna kremlausa einn daginn og svo bara kremið þann næsta. Og enga mjólk. Aldrei.

Þessi ófullnægja er náttúrulega bara í hausnum á mér og nú er ég farin að elda eins og vindurinn og þamba mjólk í lítravís. Ég er viðþolslaus af löngun til að hitta fólk, svo þegar ég hitti einhvern er ég búin að fá alveg nóg eftir smástund og vil fá að vera í friði. Þekki í augnablikinu engan fyrir utan strákana mína sem ég gæti hugsað mér að vera samvistum mjög lengi í einu. Nema auðvitað Spúnkhildi en hún er nú ekki föl til sambúðar. Þetta er ekkert af því að ég sé að jafna mig á Hollendingnum eða neitt svoleiðis, ég er alveg komin yfir hann. Hef bara ekki fundið neinn kandidat í hlutverk sálufélaga nema einn sem er ennþá efnilegri í hlutverk eymdarinnar vesalings. Hef látið hann eiga sig að mestu leyti, nenni ekki að standa í því að verða ástfangin af upprennandi eymingja þótt ég sé að ærast af leiðindum yfir dramleysi tilverunnar. Það er bara engin sápuópera í gangi og ég kann ekki alveg á þessa lognmollu.

Rikki er orðinn létt spenntur fyrir einhverri stelpu en það er ekkert dram. Mér er slétt sama þannig séð en finnst svekkjandi að þurfa að fara að leita að nýjum leikfélaga. Reyndar varla hægt að skilgreina okkur sem leikfélaga hvort sem er. Kannski vill hún heldur ekkert með hann hafa. Kannski ætti ég bara að segja það við hann, bara svo hann missi kjarkinn og þori ekki að reyna við hana. Berjast fyrir honum.

Neeeeeeeei. Hann er kannski frekar heilbrigður og allt það en hvað kvenfólk varðar er hann sama fatlafólið og aðrir karlmenn sem mér hefur fallið vel að hafa kynferðisleg afnot af. Hann kemur hvort sem er aftur um leið og hann verður gripinn þessari alkunnu karlmannlegu skuldbindingarfælni.

Það er tilgangslaust að berjast við náttúruna í fólki og farfuglar koma alltaf aftur.

Best er að deila með því að afrita slóðina