Vonbiðlar prinsessunnar

Samanlagður aldur umsækjenda reyndist 118 ár eða svo hélt ég í fyrstu. Nú er ég hinsvega búin að fá staðfest að annar þeirra laug til um aldur, er 10 árum eldri en hann sagði mér. Meðalaldur aðdáenda minna er sumsé 64 ára. Það er náttúrulega ekki að marka því annar þeirra er aðeins 55. Lítil, falleg ullarhúfa sat í salnum þegar ég kom og gjóaði á mig augum en gaf sig ekki að mér.

Sá fyrri mætti á slaginu, með hatt og allt. Hann er frægur maður og sagði mér það strax svo það færi nú ekkert milli mála. Útvistarfrík og fjallagarpur svo við eigum víst ekki margt sameiginlegt. Þokkalega viðræðuhæfur þó og virðist vel lesinn. Örlaði einnig á húmor sem verður að teljast kostur. Hann á að baki nokkur sambönd en upp úr þeim hefur slitnað þar sem kvenhylli hans hefur orsakað tilhæfulausa afbrýðisemi hjá sambýliskonunum.

Nokkur stund leið frá því að hann kvaddi mig með kurt og pí þar til hinn kvennaljóminn gerði vart við sig. Nokkrum borðum fjær sat virkilega sæt ullarhúfa, gaut á mig augum og keðjureykti. Ég er næstum viss um að hann ætlaði að hitta mig en gungnaði á því. Ég var næstum því staðin upp til að redda þessu fyrir hann þegar maður á aldur við afa minn kom steðjandi að borðinu.

Sá reyndist líka frægur.
-Ég þarf nú líklega ekki að kynna mig, það vita nú flestir hver ég er, sagði hann.
Ég varð að játa heimsku mína, vissi ekkert hver maðurinn var en þegar hann kynnti sig rann upp fyrir mér ljós.
-Já, alveg rétt, ég man eftir því að amma var svo hrifin af þér þegar ég var lítil stelpa, sagði ég.

Ég verð að viðurkenna að hann heldur sér vel. Ég keypti það allavega alveg þegar hann sagðist vera 63ja ára. Hann er hins vegar 73. Hann er listamaður, fróður, viðræðugóður, afskaplega áhugaverð manneskja. Ég hefði sennilega orðið skotin í honum ef hann væri 40 árum yngri en ég er semsagt ekki að leita mér að afa heldur bólfélaga. Hann tók það mjög skýrt fram að hann væri enginn pervert.
-Það hlýtur að vera leiðinlegt, sagði ég, ég gæti ekki hugsað mér að vera í sambandi við karlmann án nokkurra minniháttar pervasjóna.
Þrátt fyrir að vera frábitinn öllum perraskap tókst minn á loft við þessa yfirlýsingu og vildi ólmur fá að vita sem mest um pervasjónir mínar. Ég sneri talinu að öðru.

Ullarhúfan sat enn og reykti þegar ég fór en ég var orðin sein fyrir. Ef ullarhúfan les þetta þá eru skilaboð mín þessi: Kæra fallega, litla ullarhúfa, þér er óhætt að koma nær, ég er ekki nærri eins vond við karlmenn í raunveruleikanum og á blogginu.

Best er að deila með því að afrita slóðina