Menningarkvöld og Jökuldælingur

Í gær var gaman. Við sáum Úlfhamssögu hjá Hafnarfjarðarleikhúsinu og sjaldan hefur jafn lágri fjárhæð verið jafn vel varið á mínu heimili. Æðisleg sýning í einu orði sagt.

Ég fór á Rosenberg á eftir og hitti Fangóríu. Ætlunin var að kynna fyrir mér manninn sem er svo sætur að sú eigulega varð bara feimin við hann. Hljómsveitin bjargaði kvöldinu, afarskemmtilegir þessir Hraunarar (þá er ekki átt við Litla-Hraun heldur hljómsveitina Hraun. Það var líka full þörf á skemmtilegri hljómsveit því eftir 20 mínútur var mig farið að svíða í lungun og sá sæti enn ekki sjáanlegur. Líklega hefði ég bara farið heim ef hefði ekki verið svona helvíti gaman. Hins vegar hitti ég Hæfileikarann í fyrsta sinn og fannst hann bjóða af sér nokkuð góðan þokka. Ég skal hengja mig upp á að hann er hommi. Þarna var gullfalleg stelpa að gera hosur sínar grænar fyrir honum en hann hefði ekki sýnt minni áhuga þótt hún hefði beðið hann að kaupa klósettpappír til styrktar knattspyrnufélagi Ólafsvíkur.

Ukm 2 leytið var krabbameinið hlaupið svo rækilega bæði í augun á mér og lungun að ef sá sæti hefði mætt á svæðið og reynst jafn sætur og konur segja, hefði ég líklega reynt að ljúga upp veikindum. Ég var orðin hálförvæntingarfull en markmiðið er að komast á fast fyrir áramót og í þessu tilviki klæðast tækifærin ekki vinnufötum heldur pinnahælum og lungnakrabbi af völdum óbeinna reykinga er víst bara fórnarkostnaður sem maður getur fastlega reiknað með. Ég sat því sem fastast og reyndi anda hratt að mér í átt að glugganum í hvert sinn sem sessunautar mínir sugu stönglana og hægt frá mér um leið og reykurinn flæddi yfir borðið.

Ekki birtist sá sæti en hins vegar varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta í fyrsta sinn manninn sem er svo herðabreiður að hann getur ekki legið á hliðinni. Ég sannfærðist um það úr fjarlægð að hann hlyti að vera náfrændi Týnda hlekksins. Hann tróð sér á milli mín og Fangóríu og heilsaði mér með hönd sem á þessum risaskrokk er næstum fáránlega smá og fíngerð.

-Mér líður eins og strætisvagni hérna á milli ykkar, sagði hann
og líkingin dugði mér til að ákveða að hann væri nógu fyndinn til að þrauka nokkra lítra af reyk til viðbótar. Þegar kom svo upp úr dúrnum að maðurinn reykir ekki og reyndist hinn skemmtilegasti, hætti ég að ergja mig yfir því að sá sæti hefði beilað og auk þess á maðurinn sem er svo herðabreiður að hann getur ekki legið á hliðinni einhverja krúttlegustu pikköpplínu sem ég hef heyrt:
-Þú ert með fimmta sætasta rass í heimi.

-Stórskrýtið að segja svona við konu en þú hittir reyndar í mark, hvernig datt þér þetta eiginlega í hug? sagði ég
-Í hverri konu býr pínulítil prinsessa sem vill fá að vita að hún sé fallegasta kona í heimi en líka risastór raunsæiskona sem kaupir það ekki þótt maður segi það. Maður reynir náttúrulega að þóknast báðum, sagði hann og ég verð að viðurkenna að mér finnst það býsna snjallt.

Ég er ekki mikil drykkjukona en endaði kvöldið á Jökuldælingi í boði Fangóríu. Hef ekki prófað þann kokteil áður og vissi eiginlega ekki alveg við hverju ég ætti að búast. Hann er ágætur. Ferskur. Ekki eins sætur og grasshopper og þessir dísætu rjómakokteilar en samt mjúkur.

Þrátt fyrir reykinn, svefnleysið og Jökuldælinginn er ég ekkert hrjáð af day after syndrominu og búin að skúra veitingahúsið og allt. Nenni samt ómögulega að moppa gólfin heima hjá mér og langar meira í Jökuldæling en kaffi.

Best er að deila með því að afrita slóðina