Engill með prik

Maðurinn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni kveikti á kertum og bar kaffið fram í rósóttum bollum og einhvernveginn minnti það mig á Húsasmiðinn. Ég ýtti hugsuninni frá mér. Þetta voru líka allt öðru vísi bollar. Eða allavega talsvert öðruvísi. Eða a.m.k. svolítið.

Oh sister when I come to lie in your arms
you must not treat me like að stranger

merkti heldur ekkert sérstakt. Viðeigandi lag fyrir farfugl, hugsaði ég og lokaði á Húsasmiðinn.

-Ég keypti gjöf handa þér, sagði maðurinn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni og þá fyrst fannst mér þetta bara einum of líkt til að vera tilviljun.

Fyrsta gjöfin sem Húsasmiðurinn færði mér var engill sem fól andlitið í höndum sér. Eins og hann sé í feluleik og eigi að telja upp að 100 á meðan hinir fela sig, hugsaði ég.
-Hann sér ekkert illt, sagði Húsasmiðurinn og ég samþykkti það, alveg þar til ég fékk þann næsta.
-Heyrir ekkert illt? Hvernig má það vera? Hann heldur fingri við eyra eins og hann sé einmitt að hlusta og augun eru galopin. Meira eins og hann trúi ekki sínum eigin eyrum, sagði ég.
-Já, þetta er skrýtið, sagði Húsasmiðurinn en þetta sagði konan í búðinni.

Hann hafði ekki ennþá séð þriðja engilinn því hann var ekki til þegar hann keypti hina. Ég fór með honum að sækja hann þegar pöntunin kom. Hann var afskaplega fallegur og blés einhverju af lófa sér, líklega fingurkossi.
-Segir ekkert illt, sagði konan í búðinni.
Við litum hvort á annað og ekki einu sinni Húsasmiðurinn trúði því lengur að sú væri hugsunin á bak við þessa engla.

Seinna varð mér ljóst að englarnir höfðu forspárgildi. Þeir voru myndir af mér. Af sambandi mínu við Húsasmiðinn. Sá fyrsti leyfði hinum að fela sig og leit ekki upp á meðan. Sá næsti trúði ekki sínum eigin eyrum. Sá þriðji gerði það eina sem virtist rökrétt í stöðunni, sendi honum friðarkoss úr fjarska.

Og nú sit ég hér, á svefnsófa mannsins sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni og handleik engil. Úr sömu seríu!

-Ég hefði viljað kaupa engil sem skrifar en fann engan. En svo fannst mér þessi passa betur því hann getur samið lög við ljóðin þín, sagði maðurinn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni.

Ég skil pælinguna því við fyrstu sýn spilar hann á flautu, engillinn sá. En ef betur er að gætt virðist annað uppi á tengingnum. Flautuspilandi englar lygna venjulega augunum en þessi er með opin augu og horfir einbeittur fram. Það er ekkert gat á flautunni, hún er miklu lengri en nokkur flauta sem ég hef séð og endarnir eru massivir. Í rauninni heldur hann ekki á flautu heldur priki. Hann heldur því að vísu í flautuhæð en ekki nógu nálægt munninum til að maður trúi því að hann sé að spila á flautu og hann ber fingurna ekki eins og flautuleikari.

Ég fór semma heim. Hann ætlaði að kyssa mig og ég hefði alveg viljað það, hefði viljað vera hjá honum alla nóttina en vissi hvernig það hefði endað. Neitaði að kyssa hann og afsakaði mig með flensu (sem hrjáir mig nógu mikið til að gera mig geðilla en ekki nógu mikið til að leggjast í sjálfsvorkunnarsælu).

cherub-on-ball-playing-flute-01Og nú situr engillinn minn innst inni í eldhússskáp, ennþá í selollófaninu og ég velti því fyrir mér hvað hann tákni. Hvað á ég að gera með prik? Kasta því og bíða eftir að leikglaður hundur komi á harðahlaupum og skili því? Berja einhvern með því? Nota það sem göngustaf? Pota í einhvern með því? Eða er þetta kennaraprik? Merkir þetta að nú þegar ég er búin að fjárfesta í blokkaríbúð, sem mig langaði alls ekki í en gleður marga aðra óskaplega mikið, sé rétt að stíga skrefið til fulls og gerast kennari? Kannski. Ef ég hefði verið í kennslu hefði ég allavega haft nógan tíma til að skrifa síðustu vikurnar. Ég ætla rétt að vona að þessu verkfalli fari að ljúka.

Uppfært: Þegar styttan hafði staðið í sellofaninu í nokkra mánuði gaf ég Sykurrófunni hana. Stytturnar sem Húsasmiðurinn gaf mér skildi ég eftir þegar ég flutti út frá honum og þær hefðu hvort sem er ekki passað við mitt eigið heimili.