Vitur maður hefur sagt mér að karlmenn séu heimskir. Það mun rétt vera. Þessvegna hringdi ég í lögmætan eiganda brauðristar þeirrar sem án þess að eiga þátt í rafmagnsslysi, er orsakavaldur að stærra fjölskyldudrama, meiri geðbólgu og verr þefjandi taugadrullu en flestar brauðristir aðrar, rétt svona til að fá staðfest að viðfang flekunaráforma minna væri í alvöru brottrækur ger og brauðrist sviptur.
Brauðristareigandinn bað mig fyrir alla muni að losa sig endanlega við viðfangið en tók fram að náin kynni við þá örmu mannnefnu muni að öllum líkindum hafa þau áhrif á mig að ég verði frá þeirri stundu sjálfkynhneigð.
-Ekki samkynhneigð? sagði ég
-Glætan að þú verðir samkynhneigð á því að fleka þann amlóða. Hann er þvílík kelling fyrir einn vanvita að ég er orðin varanlega fráhverf öllu sem með góðum vilja getur flokkast kvenkyns.
-Nú en karlkyns þá?
-Eva, hefur þú einhverntíma kynnst limbera sem hægt er að flokka sem karlmann? drundi í lögmætum eiganda brauðristarinnar.
Klukkutíma síðar; kappútsínó og súkkulaðikaka í boði mannsins sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni.
Hann starði á mig hneykslaður.
-Ertu að segja mér að þú hafir hringt í hana til að fá það staðfest að þetta væri búið?
-Finnst þér það svo ótrúlegt?
-Hvað er eiginlega að þér? Trúðiru mér ekki?
-Ég skal segja þér eitt gæskur, sagði ég. Ég er almennt frekar lengi að læra það sem skiptir máli í lífinu en tvennt hef ég þó lært. Annað er að reikna aldrei með því að karlmaður muni aðalatriðin, þessi stóru sem skipta máli, eins og t.d. hverri hann er trúlofaður o.þh. Hitt er að segja konu aldrei neitt sem ekki má fara lengra.
-Þú ert góð. Áttu við að þú sjálf myndir segja frá mínum leyndarmálum?
-Ekki segja frá þeim nei, en ef þau væru nógu áhugaverð myndi ég setja þau á bloggið mitt.
Hann fölnaði
-Þú ert þó ekki að segja…
-Nei, ekki það. Ég hef ekkert skrifað um ÞAÐ. Ennþá.
-Þú myndir ekki …
-Neeei, veistu. Það er bara ekki nógu áhugavert.
-Kvikindi! Þú gerir þetta viljandi.
-Já! sagði ég glaðlega og sleikti rjómann sem var borinn fram með súkkulaðikökunni sakleysislega. Ef maður getur á annað borð notað það orð um eitthvað sem felur í sér að sleikja.