Ég hata ekki karlmenn

Maðurinn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni heldur því fram að ég sé femínisti og karlahatari. Það er barasta alls ekki rétt hjá honum. Að vísu hef ég sagt -og stend við það, að það sé ákveðin fötlun að vera karlmaður en ég hata ekki fatlaða, ég vorkenni þeim bara.

Svona í alvöru. Ég elska karlmenn. Sumir af mínum bestu vinum eru karlmenn. Mér þykja karlmenn dæmalaust dásamlegar verur. Ég hef yndi af félagsskap þeirra. Mér finnst mikið til þess koma hvað þeir geta borið þunga hluti langa vegalengd. Sumir þeirra eru m.a.s. nothæfir í bælinu. EN -það er eins og vitri strákurinn segir; karlmenn eru heimskir. Ekki í þeim skilningi að sé nokkuð athugavert við greindarvísitölu þeirra. Það er alveg hægt að kenna þeim fullt, eins og t.d. stjarneðlisfræði og vélvirkjun. En flesta þeirra skortir sárlega þar sem nútíma samskiptafræðingar kalla tilfinningagreind. Og það getur verið dálítið þreytandi að reyna að halda tilfinningalegum tengslum við verur sem eru frá náttúrunnar hendi tilfinningalegir fávitar sem skortir einfaldlega hæfileikann til að forgangsraða hlutunum rétt og siðlega.

Mér þykir t.d. afskaplega vænt um Vesturfarann sem lifir á námsláni konu sinnar og getur því ekki greitt meðlag með barninu sínu. Mér þykir vænt um hann af því að hann er sætur og skemmtilegur og gerir stundum eitthvað rétt. En ég fyrirlít hann líka í aðra röndina fyrir að vera svona skelfilegur ojmingi.

Mér þykir líka alveg hrikalega vænt um manninn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni. En í alvöru talað; maðurinn áttaði sig ekki á því að hann var í skuldbindingarsambandi fyrr en þau fengu brauðrist í jólagjöf. Saman. Fram að því hélt hann að þau væru „bara“ trúnaðarvinir sem af hagkvæmisástæðum leigðu saman, elduðu sameiginlegar máltíðir og -eins og fyrir tilviljun- svæfu saman líka. Fékk svo kvíðakast þegar brauðristin kom á heimilið ætlaði að rjúka austur á land til Evu. Bara til að vera þar í nokkra daga. Af því bara. Nei, þetta er ekki heimska í eiginlegum skilningi. Bara venjuleg karlmennska.

Þannig að…. það eru eiginlega ekki karlmennirnir sjálfir sem ég fyrirlít. Ekki persónurnar sem slíkar, heldur konseptið.

Best er að deila með því að afrita slóðina