Dagurinn í dag 2

Í dag ætla ég að hitta manninn sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni. Ónei, mín fagra og magra, ég rauk ekki upp úr hlýju bæli mínu um miðja nótt til að hömpast með manni sem ég hef ekki séð í 7 ár.

Í fyrsta lagi af því að ég sef á næturnar og maðurinn þarf að vera, ekki bara skverlegur heldur eigulegur til að hvarfli að mér að fara fram úr rúmi og endurnýja andlitssparslið fyrir hann.

Í öðru lagi var ég búin að drekka bjór og þ.a.l. ekki ökufær og maðurinn þarf að vera líklegur til þesss að ættleiða brauðristina mína til að vera þess virði að splæsa í leigubíl hans vegna.

Í þriðja lagi höfum við ekki sést ærið lengi. Ég er sjálf komin með augnpoka niður undir bringspjalir og hamingjan má vita hvernig holdafar og hárafar hans er eftir allan þennan tíma, 5 skilnaði við sömu konuna, forræðisdeiluna yfir brauðristinni og aðra þætti hefðbundins fjölskyldudrama.

Ég stakk upp á því að við hittumst á kaffihúsi áður en nokkuð meira yrði rætt.

Og nú er staðan þannig að Spengilfríður liggur í ógeðspest og Pólína er í fríi, sem merkir að ég get reiknað með öllu lengri vinnudegi en ég átti von á. Sem gæti sett strik í reikninginn. Vonandi ekki samt skammarstrik, þankastrik eða rautt strik. Bara svona venjulegt strik.

Mér er fokkings sama. Hvort sem ég næ kaffihúsinu eða ekki verður þetta góður dagur. Stundum bara veit maður það.