Dagurinn í dag

Þetta verður góður dagur.
Af því að ég er svo frábær.
Ég er t.d. stórkostleg skúringakona, geri aðrir betur.

Í dag græði ég 10 milljónir.
Eða allavega eina.
Ægifagur, gáfaður, efnaður og umfram allt tilfinninganæmur karlmaður mun elta mig á röndum til að játa mér ást sína frammi fyrir 300 manns, sennilega á einhverjum íþróttaleikvangi (hvað í ósköpunum sem ég ætti nú annars að vera að gera á slíkum stað, það verður fróðlegt að sjá.)
Sonur minn Hárlaugur mun kyssa mig og knúsa að eigin frumkvæði og þakka mér grátklökkur fyrir að hafa vakið sig í morgun og þvingað hann til að fara með skólabækurnar til ömmu sinnar.
Ég verð útnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Ég fæ varanlegt ógeð á súkkulaði.
Og smjöri.
Öll þessi velgengni mun hafa slík kraftaverkaáhrif á útlit mitt að rasspokarnir munu skreppa saman, brjóstin stækka og húðin endurheimta æskuljóma sinn.
Sólarhringurinn lengist skyndilega um 3 klukkutíma, sem gefur mér aftur ráðrúm til að skrifa ljóðið sem ég geng með í maganum.
Þetta verður frábær dagur, líf mitt verður amrísk bíómynd. Eða amrískt tyggjó.

Þetta skilst mér að sé heppilegasta aðferðin til að draga hamingjuna á tálar. Bara að telja henni trú um að hún sé manni hliðholl, klappa svo á eigið læri með Sólheimaglott á vör og þá kemur hún hlaupandi eins og hver önnur hundtík.

Na-da. Mig vantar ekki svona yfirdrifna hamingju, ekki alla í einu. Milljónin dygði mér. Allavega í dag.

Best er að deila með því að afrita slóðina