Uppfinningamaðurinn

Það er eitthvað skrýtið við að hafa uppfinningamann að störfum við eldhússborðið, ekki við að setja tækið saman, heldur við að hanna það.
-Jæja, nú skulum við gá hvort þetta virkar, nei það er alltof mikil spenna á þessu en ég held ég viti hvað þarf að gera til að fá þetta rétt …
Hlýtur að þurfa verulega þolinmæði til þess arna. Á hinn bóginn dettur mér í hug að þetta sé kannski ekki svo ólíkt því að skrifa. Hversu oft hef ég ekki vöðlað saman nánast fullunnu kvæði, tekið sama efni, sama myndmál og sömu ljóðstafi og snúið í annan bragarhátt. Sennilega er þetta ekki svo ólíkt.

Hann er hrokkinhærður og mjög grannur, miklu yngri en uppfinningamenn í bíómyndum en þegar allt kemur til alls hlýtur Einstein að hafa verið ungur þegar hann byrjaði að vísindast og ég er ekki frá því að hann hafi lískt uppfinningamanninum mínum þegar hann var á hans aldri.

Ég ímynda mér stundum uppfinningamanninn sjötugan. Dunda mér við að líma á hann kringlótt gleraugu, sjá fyrir mér skalla með gráum, hrokknum kraga og láta hendurnar tina. Ég ímynda mér að hann sitji við borð á litlu verkstæði, með sterkt ljós og stækkunargler og rauli Those were the days. Svo verður hann leiður á verkinu og þá tekur hann stafinn sinn og staulast yfir til konunnar sem hann kallar Perluna og fær hjá henni instant kaffi úr könnu sem kostaði 200 kall í Tiger.

Og Café Perlan glottir inni í sér, yfir því að hann skuli aldrei hafa sett það fyrir sig að lifandi ostruskeljar eiga það til að bíta. Stundum bara þó nokkuð fast.

Best er að deila með því að afrita slóðina