Vínveitan

Ég velti því oft fyrir mér hvað Vínveitan geri á daginn. Það er svo skrýtið en ég sé hana alltaf fyrir mér í freyðibaði. Svona eins og í alvöru sápuóperu, með rosalega mikilli froðu þannig að viðbeinin sjást og axlirnar. Það gerir hana sexý en samt ekki klámfengna. Svo er hún með augnskuggann á sínum stað og hárið þurrt. Sem gerist auðvitað ekki nema í sápuóperu og þessvegna er ímyndunin áreiðanlega fjarri lagi. Líklega er hún bara að hengja upp þvott og sækja krakkana á leikskólann eins og aðrar konur en þessi freyðibaðsmynd situr svo fast í mér að ég verð eiginlega að nota hana.

Vínveitan á mann og ég held að hann sé á svipuðum aldri og hún og laglegur. Ég ímynda mér að hann sofi laust, svo laust að hann vaknar þegar hún kemur heim úr vinnunni á laugardagsnótt. Hann er örugglega þessi týpa sem lætur renna í bað fyrir hana. Svo situr hann á baðkarsbrúninni og hún talar um vinnuna og svo tala þau um börnin sín og vesenið í sambandi við húsið. Stundum kveikja þau á kertum og drekka eitt rauðvínsglas en bara eitt. Svo kemur að því að þau drekka heila flösku af því að krakkarnir eru í pössun hjá mömmu hennar og þau ætla að sofa út næsta dag. Og þá hleypur galsi í hana og hún dregur hann ofan í baðkarið til sín. Samt klessist maskarinn ekki neitt.

Best er að deila með því að afrita slóðina