Þokki

Þegar Þokki kemur heim til sín er konan hans vakandi, börnin sofnuð og allt í drasli. Það er kennaraverkfall og börnin hafa búið til hús úr sófapúðunum og farið með poppkorn inn í stofu.

Þokki treður sófapúðunum á sinn stað og kveikir sér svo í sígarettu.
Þokki: fórstu í bankann?
Frúin: Jájá. Þetta reddast alveg þennan mánuð allavega. Við þurfum kannski að hækka heimildina fyrir jólin.
Þokki: Andskotinn nei, ég nenni ekki að lenda í þessum vítahring aftur, tek frekar meiri vinnu.
Frúin: Þú vinnur of mikið og svo ættirðu að passa hnéð á þér betur.
Þokki: Skítt með það, verra hvað maður er lítið með krökkunum. Vonandi að þessu fjandans verkfalli fari að ljúka.
Frúin (horfir rannsakandi á hann): Segðu mér eitt elskan. Er eitthvað að angra þig?
Þokki: Nei. Nei alls ekki.
Frúin: Segðirðu mér frá því?
Þokki: Ætli ég þyrfti nokkuð að segja?
Frúin: Æ, mér finnst bara eins og eitthvað liggi þungt á þér. Eitthvað annað en hnéð.
Þokki: Njahhh. Ekki kannski þannig að það liggi þungt á mér. Ekki beint. Ég meina -mér hefur svosem aldrei liðið betur. Það er dálítið til í þessu „livet er ikke det værste man har“. Ekki svo vitlaust, hreint ekki. Það er bara eitt, og það er ekki vandamál og ég er ekkert að fara að gera neitt í því, af því að ég er ekkert tilbúinn til þess held ég og þetta er eitthvað sem ég kann og geri vel og er vanur. Það er bara það að undanfarið hefur það gerst, á hverjum einasta degi, að ég stend sjálfan mig að því að hugsa; hvað í ósköpunum er ég eiginlega að gera í þessu starfi?

Best er að deila með því að afrita slóðina