Sá geðþekki

Sá geðþekki gengur um eins og tillitssemin holdtekin. Hann læðist inn, ofur varlega til að vekja engan. Kannski býr hann í blokk og þá gætir hann þess að leggja útihurðina varlega að stöfum. Þegar hann kemur inn til sín fer hann inn í barnaherbergið og horfir á börnin sín sofa. Það er svona tilfiningaþrungið andartak en samt ekki væmið. Svona sena sem maður getur alltaf horft á aftur, þótt það sé í sápuóperu.

Næst fer hann fram á bað. Hann horfir í spegilinn og reynir að neyða sjálfan sig til að segja „ég er frábær“. Linsunni er beint að speglinum og hann er rosalega sætur. Svo er skipt um sjónarhorn. Linsunni er beint að honum sjálfum og við sjáum hann eins og hann er, huggulegan og allt það en augljóslega þreyttan eftir alltof langan vinnudag. Og nú heyrum við hugsanir hans sem yfirgnæfa allar frábærleikastaðfestingar; „frábær, ég segi það nú kannski ekki, ég er bara ekki nógu hrokafullur til að halda í alvöru að ég sé eitthvað meira númer en aðrir, en ég er allavega ókey og það hlýtur að duga, fjandakornið, það hlýtur að duga“.

Þegar hann fer í rúmið horfir hann smástund á konuna sína sofa og það er líka hrífandi sena. Hún sefur í fósturstellingu og er með sítt dökkt hár sem leggst yfir andlitið. Nei annars, rautt. Eða nei dökkt, allavega sítt. Ef hún sefur mjög fast tekur hann hárið ofur varlega frá andliti hennar og kyssir hana á gagnaugað. Svo kinkar hann kolli og segir við sjálfan sig, „Hvaðan kemur annars þessi fáránlega krafa um að maður eigi endilega að vera frábær? Ég er ókey, það dugar.“ Og það dugar.

Best er að deila með því að afrita slóðina