Pólína

Pólína sest við tölvuna í setustofunni og skrifar systur sinni>

Mér líður ekki beinlínis illa, þannig séð. Launin eru hærri en heima en allt virðist bara vera svo miklu miklu dýrara að stundum efast ég um að þetta borgi sig. Ég nefndi það einu sinni við fólkið sem vinnur með mér. Þau urðu mjög hissa og sögðu að ég gæti áreiðanlega fengið fleiri vaktir ef ég væri blönk. Það er einhvernveginn svarið við öllu hér. Bara vinna af sér rassgatið og þá verður allt í fína.

Íslendingar eru ágætir en samt dálítið sér á báti. Þeir eru ekki trúaðir, allavega biðjast þeir aldrei fyrir þeir bara vinna og vinna. Ef þeim líður illa vinna þeir bara meira til að gleyma því. Ef þá vantar eitthvað vinna þeir til að hafa efni á því. Ef þeir eru glaðir nota þeir tækifærið til að taka aukavakt á meðan þeir eru í stuði. Þeir eru vingjarnlegir en ekki alúðlegir. Enginn er vondur við mig en enginn er sérlega góður við mig heldur.

Þegar hún er búin að skrifa bréfið borðar hún þurrt hrökkbrauð og gúrkubita. Svo fer hún í rúmið með bók. Hún les ekki lengi, hefur ekki eirð í sér til þess. Liggur og byltir sér. Lengi.

Best er að deila með því að afrita slóðina