Fastagesturinn

Mér finnst eitthvað notalegt við að hafa heimagang í eldhúsinu. Þ.e.a.s. einn heimagang, Ég þyldi ekki að hafa margt óviðkomandi fólk yfir mér en það gleður mig alltaf svolítið að sjá fastagestinn, jafnvel þótt ættfræðiárátta hans fari í taugarnar á mér.

Fastagesturinn í sápuóperunni minni er fyllibytta. Ekki alki samt því eftir því sem hann sjálfur segir felst munurinn á fyllibyttu og alka í því að byttan drekkur til að skemmta sér en hinir eru bara sjúklingar. Þetta er athyglisverð speki og ég er ekki frá því að það sé þó nokkuð til í þessu.

Á kvöldin stendur fastagesturinn einn við barinn og gónir ofan í bjórkrúsina sína. Það finnst honum skemmtilegt.

Kannski finnst honum það í alvöru gaman. Þegar allt kemur til alls hefur hann atvinnu af því að vera skemmtilegur og sjálfsagt verður maður þreyttur á því til lengdar. Líklega er fólk yfirleitt líkt manni sjálfum. Sumir eiga bágt með að trúa því að mér finnist skemmtilegra að lesa kvæði Jóhannesar úr Kötlum en að horfa á svokallaðar rómantískar gamanmyndir. Samt finnst mér það í alvöru. Kannski er fastakúnninn ekkert einmana og grátandi inní sér þegar hann drekkur, heldur bara á bullandi Jóhannesi.

Sennilega á ég meira sameiginlegt með fastakúnnanum en nokkrum öðrum í þessu litla, sérstaka samfélagi. Hann er fyllibytta og hann veit það og viðurkennir. Honum finnst það bara allt í lagi. Ég er ekki fyllibytta en ég er hins vegar galin. Og finnst það bara allt í lagi. Margt er líkt með skyldum segja þeir og ég býst við að hann sé líka sá eini sem gerir sér almennilega grein fyrir því að munurinn á raunveruleika og ímyndun og nákvæmlega sá sami og munurinn á kúk og skít. Þetta er allt saman ein allsherjar leiksýning og oftast einhver hallærissápuópera eða farsi. Ekki margir sem fá aðalhlutverk í stórvirkjum leikbókmenntanna, froðan gengur betur í fjöldann.

Best er að deila með því að afrita slóðina