Af góðgirni hótelstjórans

Hótelstjórinn er sannkallað góðmenni, ekki síst þegar í hlut eiga einhleypar konur illa haldnar af samræðisfýsn. Undanfarna daga hefur hann lagt sig í líma við að bjarga mér frá eymd minni og einstæðingsskap með því að kynna fyrir mér hverja silkihúfuna á fætur annarri. Í dag bauð hann mér 3 karlmenn og geri Fangóría betur!

Fyrst var það Garðyrkjumaðurinn sem hann leiddi til fundar við mig laust fyrir hádegið. Ég stóð einmitt inni á skrifstofu Hótelstjórans í hrókasamræðum við hann þegar Garðyrkjumaðurinn kom aðvífandi og gerðist þegar í stað ástúðlegur svo ekki sé meira sagt. Þar sem ég hafði þá ekki lokið erindi mínu við Hótelstjórann, færði ég Garðyrkjumanninn til hliðar og bað hann að bíða. Þetta fannst Hótelstjóranum truntuleg aðgerð.

-Svo bara hrindirðu honum frá þér og það með gúmíhönskum. Hann á 12 börn með 13 konum, ég hef nú bara hreint enga samúð með þér ef þú hafnar öðru eins gulltyppi, sagði Hótelstjórinn.

Ég baðst innilega afsökunar og tók af mér gúmíhanskana. Mér skilst að það beri vott um óvenjulegt kaldlyndi að stjaka ástúðlegum mönnum frá sér með gúmíhönskum svo mér fannst vissara að vera berhent ef hann gerði aðra tilraun til að vinna hug minn og hjarta áður en erindi mínu á skrifstofu Hótelstjórans lyki. Það var nefnilega ekkert ætlun mín að móðga blessaðan Garðyrkjumanninn, það vill bara svo til að sumir eru safnarar og aðrir veiðimenn og svo er til fólk sem er hvorki safnarar né veiðmenn, heldur böðlar. Og ég er einmitt frá náttúrrunnar hendi böðull. Geng til verks af ákveðni og einurð og klára verkið vafningalaust. Það er þessvegna sem fólk verður hrætt við mig þegar ég þvæ upp, ég nefnilega drep diska.Og nú vildi bara svo til að ég var i miðju samtali og var hreint ekki tilbúin til að hlusta á ástaróð Garðyrkumannisins fyrr en ég hefði afgreitt það, klárað það, drepið það (þ.e.a.s. samtalið ekki Hótelstjórann).

Ekki tókust ástir með mér og gulltyppinu í dag og þegar ég kom í eldhúsið í kvöld kenndi Hótelstjórinn vandfýsi minni um þá staðreynd að ég er í þann veginn að pipra þrátt fyrir alla mína kvenlegu kosti.
-Elsku góði, ef þú bara sæir það samsafn vesælinga sem ég hef tekið upp á arma mína, þá myndirðu ekki ásaka mig um vandlæti, sagði ég sannleikanum samkvæmt, að því ég hélt.
En Hótelstjórinn tók mig á orðin og kom skömmu síðar í eldhússgættina, með síðhærðan fola á sextugsaldi, álíka eigulegan og Garðyrkjumanninn en þó öllu ófríðari og bauð mér hann til samræðna, samræðis eða sambúðar, allt eftir mínum smekk. Ég var einmitt í miðju kafi við að drepa sósupottinn þegar þeir komu og sá síðhærði varð svo hræddur við mig að hann flúði þegar í stað fram í sal aftur. En Hótelstjórinn var aldeilis ekki hættur og kom aftur einni glasagrind síðar og bauð mér til eignar eða afnota, ekki ófrægari mann en sjálfan Bæjarrónann.

Þar sem rónasjarmörinn víðfrægi er á leiðinni í meðferð ákvað ég að taka ekki þessu dásemdartilboði. Ég hef nefnilega heyrt að það taki meðalamanninn 2 ár að jafna sig nógu vel eftir meðferð til að vera tilbúinn í tilfinningasamband og ekki ætla ég að gerast svo eigingjörn að klúðra meðferðinni fyrir blessuðum manninnum af einskærri samræðisfýsn.

-Þú gætir orðið ljósið í lífi hans, sagði Spengilfríður.
Yeah right. Amma mín sáluga hélt því alltaf fram að ég hefði frá 3ja ára aldri verið álíka alúðleg og kaktus og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða manni upp á, jafnvel þótt hann sé róni.

Best er að deila með því að afrita slóðina