Hvað má það kosta?

Samkvæmt öllum lögmálum ætti líf mitt að vera fullkomið. Ég veit nefnilega nákvæmlega hvað ég vil og ég veit líka hvað það má kosta. Ríkustu og hamingjusömustu menn í heimi hafa gefið þessa uppskrift og ég lærði hana á barnsaldri. Hvað viltu? Hvað má það kosta? Bara vera með þetta tvennt á hreinu og þar með á að vera einfalt að svara lykilspurningunni; hvað ætlarðu að gera til þess að fá það sem þú vilt? Flestir svara aldrei síðustu spurningunni af því þeir klikka á öðru hvoru grundvallaratriðinu en ekki ég, óneiónei, ég er nefnilega með þetta allt saman á hreinu.

Ég vil t.d. fá manninn minn aftur. Ég er m.a.s. alveg viss um að ég gæti það. Ég veit hinsvegar hvað það myndi kosta. Ég yrði í samfelldu kvíðakasti þar til annað okkar gæfist upp og sliti þessu aftur. Og það er gjald sem ég vil ekki greiða.

Ég vil líka vera ljóðskáld að atvinnu og það bannar mér enginn að reyna það. En ég vil ekki fátæktina sem því fylgir.

Ég vil að sonur minn sé hamingjusamur en ég er bara ekki tilbúin til að gerast bóndi í Skagafirði til þess að svo megi verða.

Ég vil fá þykkari varir en er ekki til í áhættuna sem fylgir lýtaaðgerðum.

Stundum spyr ég sjálfa mig að því hvort ég vilji í rauninni nokkurn skapaðan
hlut. Er nokkuð í veröldinni kostnaðarins virði? Van Gogh vissi hvað hann vildi. Hann vildi mála og það gerði hann. Hann málaði og málaði en seldi ekki nema eitt verk á meðan hann lifði. Hann var nefnilega snillingur. Og átti bróður sem hét Theo og hélt honum uppi svo hann gæti málað eins og vindurinn. Enginn veit neitt um Theo og bróðir hans málaði aldrei eina einustu mynd af honum. Theo var nefnilega ekki snillingur. Hann var bara venjulegur maður sem alla ævi vann að markmiðum annarra, sá sem gerði snillingnum kleyft að snillingast. Vincent vissi hvað hann vildi. Theo borgaði.

Ég á eftirprentun af mynd eftir Vincent. Hún er flott en mér þykir samt ekkert vænt um Vincent. Hins vegar elska ég Theo. Stundum elska ég Theo svo heitt að ég tárast þegar ég hugsa til hans. Ég held að Theo hafi þrátt fyrir allt vitað hvað hann vildi. En líklega þráði hann ekkert í veröldinni nógu heitt til að greiða það fullu verði. Nema kannski það að vita bróður sinn hamingjusaman.

Best er að deila með því að afrita slóðina