Fyrirhuguð hýðing

Ég er foxill út í Hótelstjórann.

Í fyrsta lagi fyrir að hleypa þessu sataníska menntaskólaballi í húsið, í öðru lagi fyrir að ráða ekki fleira fólk til starfa á þessháttar kvöldi og í þriðja lagi af því að mér finnst heppilegt, til að hrella ekki fleiri en nauðsynlegt er, að taka alla reiði mína gagnvart mannkyninu, Bandaríkjaforseta og guðdómnum út á einum og sama manngarminum. Auk þess er hann karlmaður og það eitt nægir mér alveg til þess að skamma hann.

350 drukkin börn í húsinu. Að vísu gæslumenn með þeim (hverra hlutverk er að gæta öryggis barnanna en ekki að bera í þau kók, þrífa eftir þau eða vernda innanstokksmuni fyrir ágangi þeirra) en aðeins einn þjónn og bróðir hans á vakt. Hvaða sjúkdómseinkenni er það eiginlega? Það var ekki fyrr en skríllinn var kominn upp að dyrum sem Hótelstjórinn áttaði sig skyndilega á því að það gæti verið heppilegt að hafa svosem eins og einn starfsmann í fatahenginu. Falaðist eftir syni mínum auðkífingnum til þess en ég sagði nei, þar sem pilturinn þyrfti að mæta í skólann árla næsta morgun. Ég skipti þó um skoðun þegar ég fékk að vita að ballið stæði ekki nema til kl. 1 og bað strák að koma. Hótelstjórinn hleypti mér hinsvegar heim snemma með þeim orðum að ég þyrfti góða hvíld þar sem búast mætti við ástandsþrifum að morgni. Drengurinn kom heim kl. 3.

-Ég skil nú bara ekkert í honum að fá ekki fleira fólk til að vinna. Held að það hljóti bara eitthvað að vera að manninum, svona fyrir utan þessa fötlun sem felst í því að vera karlmaður. Ætli geti verið að hann sé alki? sagði ég (en mér finnst drykkjuskapur alltaf mjög nærtæk skýring ef mann hegða sér ekki eins og mér hentar.) Sonur minn leit hugsandi á mig og sagði svo kvíðafullum rómi;
-Ég kann vel við hann og vona innilega að það sé ekkert alvarlegt að honum en heldurðu að geti verið að hann sé kapitalisti?

Frumrannsókn mín á gólfi veitingahússins í morgun leiddi mig að eftirtöldum niðurstöðum:
a) menntskælingar nota tyggigúmí
b) menntskælingar reykja
c) hlutaðeigandi menntastofnun hefur ekki sinnt skilvirkri kennslu í notkun rusladalla og öskubakka.

Ég ætla ekki að leggja það á viðkvæmar taugar lesenda að lýsa útgangnum á húsinu að öðru leyti. Bruggarinn og bróðir hans höfðu að vísu skafið æluna upp eftir bestu getu og Pólína tók að sér að verka það sem ælt var utandyra, reykt, migið, fleygt og brotið en ég var samt rúmum 3 klukkutímum lengur en vanalega að taka staðinn í gegn. Sá strax að það yrði sólarhringsverk að moppa gólfin hrein svo ég bisaði hvíta skrímslinu fram. Skúringamaskínan sú er sannkallað verkfæri Satans, líkamsstýrt ferlíki, hannað fyrir lendar og læri 85 kg karlmannsskrokks en ekki mjóbak smávaxinnar konu. Ég hef einu sinni áður notað þetta skrímsli og sver hér og nú að þessi mín önnur tilraun til þess arna varð aukinheldur sú síðasta.

Bakmein var í uppsiglingu en alkunn geðprýði mín hinsvegar á hröðu undanhaldi þegar Hótelstjórinn mætti á svæðið og mér þótti einkar viðeigandi á þessari stundu að leggja mitt af mörkum til enduruppeldis hans.
-Þú ert nú meiri skúrkurinn, sagði ég, hleypir mér snemma heim svo ég verði nú örugglega með fullri starfsorku í þessar skítaskúringar en heldur skólakrakka fram á miðja nótt, og undirmannað og allt og fussum barasta svoddan launasparnaðarklækjum!

Hótelstjórinn varð eitthvað mitt á milli skömmustulegur og miður sín, baðst innvirðulegast afsökunar og spurði hvernig hann gæti bætt fyrir þvílík afglöp.
-Fullseint í rassinn gripið núna gæskur, og þar sem flengikokkurinn er hættur og farinn, sé ég ekki annað ráð í stöðunni en að mæta sjálf með ólina og hýða úr þér helvítis kapítalismann. Þusaði ég.

Veslings Hótelstjórinn er nú þrátt fyrir allt allur af vilja gerður að þóknast mér. Það liðu ekki nema um 20 mínútur þar til hann, í yfirbótaskini, bauð mér til afnota mannfausk nokkurn sem átti leið á skrifstofuna. Karli þessum fylgdi sú umsögn elskulegs yfirboðara míns að hann (þ.e. hinn framboðni foli) hefði lengi haft hug á að halda fram hjá sinni ektakvinnu en hefði sökum gunguháttar aldrei látið verða af því. Mega nú lesendur geta sér til um framhaldið á kynnum mínum við þennan kostagrip.

Það er nokkuð ljóst að á morgun fæ ég son minn sveitamanninn til að ljá mér góðan hrossapísk. Á laugardaginn ætla ég svo að mæta á skrifstofu Hótelstjórans, íklædd keðjuvesti og leðurbrók og flengja úr honum allan sálarkrankleika þ.m.t. nikótínfíkn og nölduróþol, drykkjuröskun og dómgreindarsig, klámsýki og kapitalisma, sem og ófögnuð annan. Vænti ég þess ágangurs af aðgerðinni að hann;
a) kjósi vinstri græna í næstu Alþingiskosningum
b) takmarki skemmtanahald framvegis við félagsvist eldri borgara, kvenfélagsbingó og önnur huggulegheit
c) útvegi mér karlmann, ekki til kynferðislegra afnota heldur til að stýra skúringavélarófétinu
d) falli fram og tilbiðji mig.

Amen

Best er að deila með því að afrita slóðina