Ég ætla að verða popphóra

Fyrir nokkrum vikum hitti ég gamlan skólafélaga. Syrgði Húsasmiðinn en var líka spæld yfir því að hafa ekki lengur tónlistarsnilling innan seilingar.
-Iss, hann er hvort sem er ekkert frægur, sagði félaginn. Hann sagðist alveg vita hvað ég þyrfti að gera til að fá tekjur af kvæðagerð.
-Þýddu texta úr ensku eða skrifaðu íslenskan texta við klassískt popplag, þá verður ekkert mál að finna flytjanda og um leið og þú færð kynningu vill tónlistarfólk nota textana þína, sagði hann.
-Ég hlusta bara svo lítið á popptónlist, þekki ekkert nema Roger Whittaker og eitthvað svona úrelt.
-Það gengur alveg. Þú gætir ort eitthvað svona „nú fer ég burt úr Þorlákshöfn“ sagði hann flissandi.
-Já, sagði ég og hef skúrað ósköpin öll síðan, skolað diska í þúsundavís en ekki skrifað svo mikið sem eina ferhendu. Vinnan mín er að vísu úthaldsaukandi en svo forheimskandi að það er varla þorandi fyrir ekki gáfaðri manneskju en mig að leggja stund á aðra eins vitleysu mikið lengur.

Í dag settist ég svo niður til að kanna hæfileika mína til að verða popphóra í stað þjóðskálds. Árangurinn lét ekki á sér standa;

Ég er að flytja úr Fjarðabyggð
og það setur að mér söknuð og hryggð

-Hræðilegt, blátt áfram hræðilegt, sagði sonur minn Fatfríður en það eru allar líkur á að virkjanalubbarnir fyrir austan kaupi þetta.
-Já einmitt, ég þyrfti að skrifa texta um lítinn dreng sem horfir á bátana leggja frá landi og svo drukknar pabbi hans. Svo leggst mamma hans í þunglyndi og fyrirfer sér og að lokum neyðist hann til að flytja suður af því að allt er að koðna niður í eymd og atvinnuleysi fyrir austan.
-Já eða ennþá betra. Litli strákurinn er að bíða eftir álverinu sem á að bjarga landsbyggðinni, sagði Fatfríður.

Ég er að vísu ekki búin með Fjarðabyggðartragedíurunkið en fyrsta gullna framlag mitt til íslenskarar poppmenningar helltist hreinlega yfir mig upp úr hádegi í dag:

Ég elskaði Harald og ennþá ég man
Einsa og Hilmar og Gísla og Svan.
Ég elskaði Óttar og elska hann enn
hví eru mér gefnir, svo glataðir menn.

Já, ég er sannarlega efnileg, slaga hátt í Hallbjörn Hjartarson, svei mér þá.

Uppfært löngu síðar: Ég hef þýtt nokkra popptexta síðan en eftirspurnin hefur nú ekki verið í samræmi við það sem skólafélaginn spáði. En hann hefur notað einn þeirra sjálfur (eða hljómsveitin hans öllu heldur) og það þykir mér vænt um.

Best er að deila með því að afrita slóðina