Hugleiðing handa tannkremssala

Tannkremssalinn er búinn að fræða mig heilmikið um það hvernig maður eigi að láta drauma sína rætast. Er með allt um markmiðssetningu og jákvæða mötun undirmeðvitundarinnar á hreinu.
-Og ert þú að gera það sem þú ætlaðir þér alltaf? spurði ég.
Hann sagðist vera að stefna að því. Og á sér svo stóra drauma að hann segir ekki einu sinni frá þeim.
-Af því að ég ætla ekkert að láta annað fólk segja mér hvað ég get og hvað ekki, sagði hann.

Elskan. Ef þú létir ekki stjórnast af áliti annarra þyrftirðu heldur ekki að halda draumum þínum leyndum. Já ég veit. Allt sem þú vilt geturðu fengið. Spurningin er bara; -hvað má það kosta? Það sem mér finnst athyglisverðast við söguna –Farsæld er ferðalag, er einmitt að það kemur ekki fram hvort ferðin var erfiðisins virði. Við vitum að þeir komust til Afríku en ekki hvort var gaman þar eða hvort þeir myndu leggja annað eins á sig aftur.

Minn kæri. Ég ætla að sitja og skrifa eins og vindurinn, bara það sem mér sjálfri sýnist og ekki fréttir eða greinar fyrir Hús og híbýli, heldur ljóð. Ég ætla að yrkja allan daginn og gera aldrei neitt annað. Ég veit hvað ég þarf að gera til þess. Ég hef m.a.s. nokkra möguleika.

a) giftast einhverjum leiðinlegum karli sem vill sjá fyrir mér. Það eina sem ég þarf að gera í staðinn er að segja já elskan og sofa hjá honum tvisvar í viku.
b) gerast félagsmálapakki og lifa við ennþá ömurlegri kjör en ég hef gert hingað til.
c) gengisfella drauminn, lifa á því að vera blaðamaður, skrifa kannski bakþanka fyrir Fréttablaðið, skrifa eina og eina ljóðabók í frístundum og menningarhórast á öllum myndlistaopnunum og bókmenntahátíðum í von um að einhver kaupi bók eftir mig. Sem er í rauninni kaldhæðnislegt þar sem ég hef ekki sérstaka þörf fyrir að birta það sem ég skrifa, vil bara fá tíma og næði til að skrifa það.

Þetta er nefnilega ekki bara spurning um það hvort maður trúir á það sem maður er að gera, heldur þarf líka alltaf að svara spurningunni, hvað má það kosta?

Ég veit ýmislegt um veg velgengninnar minn kæri. T.d. veit ég að það eru engin takmörk fyrir því sem hægt er að afreka, engin takmörk, aðeins tímamörk. Ég veit að á endanum fæ ég það sem ég vil. Ég verð einhverntíma ellilífeyrisþegi og þá get ég skrifað allt sem ég þarf að skrifa.

Ekki taka þessu þannig að ég vilji gera lítið úr viðleitni þinni til að láta drauminn þinn rætast. Ég veit að aðferðin virkar stundum, að sumu leyti og að jákvæð líffsýn gerir þetta allt saman bærilegra. Hef prófað það sjálf. Ég ætla ekki að reyna að segja þér hvernig þú átt að fara að því, ég hef nefniega ekki náð þeim árangi sjálf sem réttlætir að ég reyni að kenna öðrum. Ég skal hinsvegar hugsa fallega til þín. Og ég skal kaupa tannkremið mitt af þér.

Best er að deila með því að afrita slóðina