Völin og kvölin

Laugardagskvöld. Ég í fríi. Gnægð kynþokkafullra karlmanna úti á lífinu en ég nenni ómögulega að vaxbera á mér fótleggina, hvað þá að fara inn á skemmtistað.

-Eigum við ekki bara að skreppa aðeins niður á Fjörukrá og fá okkur einn bjór? sagði sonur minn Hárlaugur, rétt eins og það væri alvanalegt að ég færi með 15 ára syni mínum á öldurhús. Krakka sem auk þess er alls óvanur áfengisneyslu og verður það lengi enn ef ég fæ nokkru ráðið.

Hárlaugi þótti ég ekki skemmtilegri en svo að hann lokaði sig með gítarinn inni í herbergi. Ég hringdi í skólafélagann af því að hann er sá eini sem ég þekki sem er:
a) skemmtilegur án þess að einhver stuðkrafa fylgi pakkanum
b) ekki bundinn yfir fjölskyldu
c) hugsanlega viðræðuhæfur á laugardagskvöldi
Hann reyndist vera upptekinn í kvöld.

Í dag fékk ég opinberun, vissi bara skyndilega hvaða popplag það er sem ég vil skrifa texta við. Ég hef ekkert hugsað um það fyrr og eins og ég er stemmd núna væri vonlaust fyrir mig að skrifa texta við sorglegt lag eða angurvært. Kæmi ekkert nema harmaklám út úr því. Hinsvegar er lagið sem poppaði upp í kollinn á mér í dag svo glaðlegt og ástfangið að ég þyrfti helst að koma mér í gáskafullan hamingjugír svo textinn komi eðlilega. Spurning hvort sé vænlegra til árangurs í þeim efnum að fara snemma að sofa eða reyna að rífa mig upp og fara eitthvert út og verða ástfangin af einhverjum bullusterti. Eða lenda í bílslysi, ég fæ alltaf ákveðið kikk út úr því.

Best er að deila með því að afrita slóðina