Stofna athvarf?

Ég hef ekkert heyrt í Spúnkhildi ennþá og veit því ekki hvort dömpið var alvörudömp, uppeldisdömp, þynnkudömp, þreytudömp eða geðbólgudömp. Jamm, Öryrkinn dömpaði henni semsagt. 

„Af því að allir karlmenn eru keeeellingar“ sagði hún og svo náðum við ekki að tala meira saman, en hún hlýtur nú að hafa verið búin að átta sig á því áður en hún flutti út frá mér.

Kannski ætti ég að hætta við að kaupa íbúð sem hentar mér og strákunum mínum og sækja frekar um lán til að kaupa risastórt hús og stofna dömpathvarf fyrir fólk sem sakir nýlegs dömps er í húsnæðishrakningum, og nógu félagssvelt til að halda að það þurfi endilega að giftast öllum sem það sefur hjá. Þá gæti ég fengið æskuunnustuna hina enneinusinnidömpuðu og Spúnkhildi hina dömpvísu til að spila við mig scrabble. Við myndum spá í tarot, lakka á okkur neglurnar og verða ómótstæðilegar.

Spúnkhildur gæti tekið að sér heimilisbókhaldið, þvottinn og yfirhöfuð allt sem útheimtir röðunarástríðu.

Æskuunnustan sæi til þess að ég frétti af helstu menningaratburðum áður en þeir eiga sér stað en ekki þegar ég er löngu búin að missa af þeim.

Sjálf myndi ég elda kjötsúpu á milli þess sem ég liði um salina með yndisþokka.

Best er að deila með því að afrita slóðina