Eldhús

Og svo er ferðamannatíminn á enda, minna um hótelþrif en þörf fyrir mig í eldhúsinu á kvöldin.

Í eldhúsinu er töluð arabiska í bland við ensku, pólsku og íslensku. Pólskan reyndar á undanhaldi þar sem 3 Pólverjar eru nú farnir til síns heima. Hótelstelpan ein eftir og verður sjálfsagt einmana á næstunni. Ég ætla að bjóða henni heim en eins og staðan er bý ég í kössum og hef ekki áhuga á að fá neinn í heimsókn. Ég kann eitt orð í arabisku, það er yhallah. Ég veit að vísu ekki hvað það merkir en arabar virðast nota það álíka mikið og Íslendingar nota orðin heyrðu og jæja. Stundum heyri ég þá ekki segja neitt annað en yhallah, heilu kvöldin.

Arabiski kokkurinn Abdullah Akhbar hefur einstakt dálæti á bbq-sósu og smyr henni ótæpilega yfir allt sem hann eldar handa staffinu, hvort sem um kjöt, fisk eða grænmeti er að ræða. Með bbq smurningnum er svo borin fram kartöflumús eða potatomouse eins og stóð á fyrstu gerð matseðlisins sem ég fékk til yfirlestrar. Á þeim lista var einnig boðið upp á birdmeat með bbq sósu og potatomouse.

Bakaður þorskur með bbq sósu og kartöflumús er alveg jafn vondur og við má búast en sem betur fer hefur sá réttur ekki verið boðinn gestum. Ég horfi á Abdullah raða humarhölum í glæsilegan turn ofan á ristuðu hvítlauksbrauði.
-Þetta er girnilegt, segi ég en alveg væri það eftir þér að gluða bbq sósu yfir allt saman. Hann hálffyrtist við en það er samt ekki fyrr en ég býðst til að kenna honum að búa til kartöflumús sem hann hótar að flengja mig með steikarspaðanum.
„Það gæti orðið skemmtilegt, ertu búinn að fá leyfi hjá konunni þinni?“ segi ég og skræki eins og stelpugelgja þegar hann mundar sleifina.

Bruggarinn á vakt og ég get hugsað mér margt leiðinlegra en að horfa á hann. Jamm, eldhús er í eðli sínu erfitt, leiðinlegt og illa launað en mér líður vel innan um fólk. Hef ekki hlegið meira síðustu daga en tæpa 3 mánuði þar á undan. Það er til nokkurs unnið.

Best er að deila með því að afrita slóðina