Bréf til kaffihúsavinar

Hmmm…Takk fyrir bréfið minn kæri.

Það er rétt til getið að bæði góðkunningjar og einnig menn sem ég þekki lítið eða ekkert hafa boðist til að bæta úr brýnni karlmannsþörf minni en ég hef ekki hugleitt þau tilboð alvarlega. Viðreynsla virkar eiginlega ekki almennilega á mig nema augliti til auglitis og gefst þó ekkert garantí fyrir því að ég falli í stafi þótt frambjóðandinn sé sýnilegur.

Í sumum tilvikum getur bein nálgun jafnvel reynst lostaslökkvandi, einkum ef viðkomandi er undir miklum áfengisáhrifum. Mér finnst ekkert, og þá meina ég ekkert, jafn fráhrindandi og maður sem er nógu drukkinn til að vilja prófa allar sínar villtustu fantasíur á sömu 20 mínútunum en hins vegar of drukkinn til að vera fær um að framkvæma nokkra þeirra. Bréfaleiðin er hinsvegar heppileg fyrir margra hluta sakir, maður t.d. ræður því hvort maður svarar eða ekki en ég fuðra ekki upp af vergirni þótt ég fái bréf.

Táldráttarkjóllinn var keyptur fyrir ca. ári og því ekki sá sem þú spyrð um í bréfinu þínu. Reyndar vissi ég ekki að sá kjóll væri svona tælandi. Hefði ég vitað það hefði ég ekki farið með hann í Rauða-Krosskassa þegar ég flutti í sumar. Vonandi gagnast hann einhverri einmana konu í Afríku til táldráttar.

Ég kann vel að meta hreinskilni þína og það er rétt hjá þér að mig vantar maka en ég held hinsvegar að ég sé ekkert uppteknari af kynlífi en gengur og gerist. Það er bara alveg eins með kynlíf eins og peninga, heitt vatn og félagsskap; á meðan þú hefur nóg af því hugsarðu lítið um það en þegar þig vantar það kemst ekkert annað að. Það er alveg viðbúið að þér þætti ég beinlínis kynköld ef ég hefði greiðan aðgang að íðilfögrum sveinum hvenær sem mér hentaði.

Bíó, kaffihús whatever, jú höldum því endilega áfram, mér líkar allavega nógu vel við þig til að hafa sagt þér það sem mjg fáir vita. Ég hef hinsvegar ekki mátað þig inn í kynlífsfantasíur mínar …

… þ.e.a.s. ég var að prófa rétt í þessu og það gerist ekkert, kemur bara svart. En það er kannski ekki að marka, ég prófaði ekki mjög lengi. Ég skal hinsvegar hugleiða alvarlega möguleikann á að giftast þér. Maður þarf nefnilega ekki að giftast öllum sem maður sefur hjá og þá heldur ekki að sofa hjá öllum sem maður giftist.

Ég er að vinna öll kvöld í þessari viku en hafðu endilega samband ef þig langar í bíó, á kaffihús eða eitthvað ennþá menningarlegra í næstu viku.

Kær kveðja
Eva

Best er að deila með því að afrita slóðina