Tilboð undirritað

Húsráðandinn minnti á hórumömmu. Hún var með eldrautt hár sem fór enganveginn við hrukkurnar og tók á móti mér vel í glasi og angandi eins og brugghús. Sagði okkur 3x sinnum að hún hefði orðið sextug fyrir skemmstu (ég býst við að það sé þriðji í afmæli hjá henni) og lagði meiri áherslu á að uppfræða okkur um erfðagripi sína og barnabarnafjöld en íbúðina sem hún ætlaði að selja mér.

Íbúðin var hins vegar fín. Að vísu í blokk en nánast allt sem er á viðráðanlegu verði í hverfinu er komið yfir fimmtugt og þar sem húsasmiðurinn er út úr myndinni gengur ekki að kaupa eitthvað sem þarf að gera við eftir nokkra mánuði. Íbúðin hlaut náð fyrir augum föður míns og nú er ég búin að gera tilboð.

Er með hnút í maganum, fæ svar kl 5 á morgun. Ef því verður tekið þarf ég bara að finna út hvernig ég á að verða mér úti um þessa peninga sem ég ímyndaði KB banka að ég ætti, til þess að fá greiðslumatið. Það verður kannski ekki „ekkert mál“ en það tekst. Það eru ekki örlög mín að vera blönk þegar mig vantar peninga.

Best er að deila með því að afrita slóðina