Böl og kvöl að finna viðeigandi endi

Það versta við sápuóperur er að þær hafa alderi neinn rökréttan endi. Sápuóperan mín Böl og kvöl í Byljabæ er að verða hæf til uppsetningar. Ég byrjaði á henni í djóki en sá fljótt að hún gæti orðið virklega góð svo ég tímdi ekki að setja hana á vefinn (frumuppköstin að fyrstu þáttunum eru að vísu ennþá á reykvísku sápunni). Síðan er ég búin að umskrifa og endurskrifa og sé ekki betur en að þetta sé að verða sýningarhæft verk. Ég ætla að bjóða Hugleik það til sýninga í haust. Eini vandinn er endirinn. Ég veit ekki alveg hvort ég á að láta hana enda þar sem hún er stödd núna, í lausu lofti, með lúmsku fyrirheiti um framhald eða hnýta einhvern endi á hana.

Í síðasta þætti er músin sem læðist búin að naga sig inn í svefnherbergi Hermanns og Ragnhildar. Ístrubelgurinn er lagstur í drykkjuskap vegna óbærilegrar sútar sem greip hann þegar hann lenti í árekstri við Hermann, á nýja, dýra fjallajeppanum og reyndist vera í órétti. Hallbera er búin að éta á sig 40 aukakíló og hefur fengið styrk hjá félagsmálastofnun til að láta víra saman á sér skoltana. Dýrleif er flúin í faðm móður sinnar eftir hressilegt rifrildi við Hákon en hann er aftur á móti fluttur inn til Gróu í Garðabænum og hefur lofað henni að ráða litlu gulu hænuna af dögum.

Eins og sjá má eru þarna margir lausir endar en þar sem verkið má helst ekki taka meira en tvo tíma í sýningu er erfitt að hnýta þá alla. Kannski ég leysi þetta með því að láta spákonuna birtast „ex machina“ (eða var það aux machina?)

Best er að deila með því að afrita slóðina