So dry your eyes

So dry your eyes
and turn your head away
now there´s nothing more to say

PassionPlay diskurinn minn er týndur en Nick Cave gerir sama gagn.

Þegar ég mætti upp á útvarp um daginn, kastaði fallegi tæknimaðurinn sér í gólfið og sleikti á mér tærnar. Hann sagði reyndar að það væri ekki sérlega gott að sleikja nælon og bað mig að koma berfætta næst. Ókei, ég er að ýkja smá en hann sagði allavega að ég væri „frábær penni“ og spurði hvenær væri von á metsölubók.

Ef þetta hefði gerst í dag hefði ég spurt hvort hann væri á lausu. En þetta var sumsé ekki í dag. Fokkitt. Jæja, ég er allavega búin að tala við bankann, skila af mér ferðabæklingi, sem ég er búin að hanga yfir alla vikuna þótt sé ekki nema 10-12 tíma vinna á bak við hann, kaupa mér buxur og fara í ljós. Fékk loksins greiddan 50.000 kall sem ég átti inni hjá Gunnari, síðan í vor og gat þessvegna borgað af kortinu mínu, vonum seinna. Má skoða íbúð sem ég held að komi til greina á mánudaginn. Einhverntíma hefur maður víst séð það svartara og kökkurinn í hálsinum er smámsaman að leysast upp.

Hamingja, fegurð, heilbrigði, ást og auðæfi, mögnuð fimma og auðvitað vill maður það allt. En maður fær ekki allt, það er víst bara þannig. Fyrst ég fæ ekki ástina ætla ég allavega að fá allt hitt. Hamingjan er minnsta málið, hún er eins og hár á fótlegg, vex alltaf aftur sama hve oft hún er slitin upp. Heilsu minni hef ég ekki áhyggjur af og ef maður kemst yfir auðæfi er alltaf hægt að fara í lýtaaðgerð. Það eina sem ég þarf að gera er því að verða mér úti um helvítis helling af peningum. Spurningin er bara hvernig. Fíkniefnabransinn kemur ekki til greina svo valið stendur líklega annaðhvort um að stofna hóruhús eða skrifa metsölubók. Annað er ólöglegt, hitt er órauhæft. Á einhver tening til að kasta? Kannski ég ætti að æða upp í útvarpshús og spyrja sæta tæknimanninn álits?

Best er að deila með því að afrita slóðina