Hæ hó jibbýjei

Vörður laganna er loksins búinn að vígja hátíðabúninginn. Hann tók þriðjudaginn í að máta gallann, prófa flautuna og ákveða nákvæma staðsetningu húfunnar með hallamáli og gráðuboga. Generalprufan var í gær en þá æfði hann sig í að marsera yfir eldhússgólfið með húfu, flautu og allt galleríið. Hann er orðinn svo þjálfaður í Gestapósvipnum að ég hugsa að hann vinni keppnina „Bjartasta von sérsveitarinnar“ sem Björn Bjarnason mun auglýsa á næstunni.

Þegar Vörður laganna kom heim af vaktinni í dag, í hátíðabúningnum, ollu líkamsburður hans og festan í svipnum því að ég fór ósjálfrátt að humma Öxar við ána. Hann spurði mig nokkuð kvíðafullur hvort ég gæti þvegið skyrtuna hans (ég þvæ alltaf skyrturnar hans en hann virðist alltaf hafa jafn þungar áhyggjur af því að það gleymist) og bað mig svo að halda á hinum háttvirtu löggæslubrókum á meðan hann hengdi jakkann á herðatré. Mér skilst að gildi svipaðar reglur um hátíðabúning lögreglumanna og þjóðfánann sem dæmist vanhelgur og er til eyðingar sendur ef hann snertir jörð eða er ekki geymdur í réttum brotum.

Synir mínir Fatfríður og Hárlaugur fóru í bæinn og komu heim með lítið flagg og flautu, svipaða þeirri sem löggæsluhetja heimilisins ber í gyllti keðju áfastri við hátíðabúninginn, nema þessi var rauð og úr plasti, merkt OgVodafone. Fatfríður fékk ekki að vanhelga lögregluflautuna með uppreisnartranti sínum en Hárlaugur fann reyndar eina flautu til viðbótar, og tilheyrir sú hinum hirðusama sambýlismanni mínum. Þótti flautan hið mesta hnoss og skemmtu synir mínir mér og löggæsluhetjunni með samblístri í tilefni hátíðarinnar. Sviplegt andlát ömmu unnusta míns bjarg honum frá því að sitja undir hinum íðilfagra flautuleik og má því segja að andlát hennar hafi, eins og allir sorglegir atburðir, sínar jákvæðu hliðar.

Best er að deila með því að afrita slóðina