Einhver fegursta saga sem ég þekki er sagan af því þegar litla tígrisdýrið og litli björninn voru á ferðalagi í gegnum skóginn til að leita að fjársjóði. Þegar litla tígrisdýrið varð þreytt, tók litli björninn það á bakið og bar það, alveg þar til hann var orðinn svo þreyttur að hann komst ekki lengra. Þá tók litla tígisdýrið vin sinn á bakið og bar hann þar til það til það var aftur orðið uppgefið. Þannig héldu vinirnir áfram í gegnum skóginn, báru hvor annan til skiptis, þar til takmarkinu var náð.
Eitthvað er eins og það á að vera, því þegar litla tígisdýrið verður þreytt, eflist ég til muna. Og þótt ég trúi ekki á líf eftir dauðann er ég farin að hallast að því að eitthvað sé til í því hjá systur minni hinni æðrulausu að amma sáluga sé ennþá að kippa í einhverja spotta, því þegar ég opnaði tölvupóstinn minn í gærmorgun, var þar óvænt jólakveðja sem skiptir mig 10 sinnum meira máli en sendandann gæti rennt í grun. Það fylgir nefnilega sögunni af litla birninum og litla tígrisdýrinu, að maður getur ekki hvorttveggja í senn, borið á bakinu besta vin sinn og fullan poka af gulleplum. Ég tek mark á þeirri sögu og burðast ekki með poka af gulleplum.
En á einhverju verður maður víst að lifa og þegar maður er alveg að gefast upp, kemur eplatréð sjálft hlaupandi til manns og gefur manni einmitt þennan eina ávöxt sem maður þurfti á að halda, til að öðlast styrk til að bera besta vin sinn á bakinu ofurlítinn spöl í viðbót, þar til hann er úthvíldur og fær um að bera mann á bakinu, fram hjá skóginum þar sem gulleplin vaxa og alla leið heim, þangað sem kartöflur, blómkál og hamingjan sjálf grær í garðinum.