Ekki eitt verkefni

Birta: Ekki eitt verkefni inn á borð síðustu tvær vikur. Heitir það ekki atvinnuleysi?
Eva: Ég er ekki þessi týpa sem gengur atvinnulaus.
Birta: Við erum nú samt atvinnulausar góða mín.
Eva: Það hljóta að koma verkefni.
Birta: Það veit ég ekkert um en hitt veit ég að það koma jól.
Eva: Þetta reddast.
Birta: Hvernig?
Eva: Ég veit það ekki ennþá.

Birta: Hvað ætlarðu að láta okkur gera í dag?
Eva: Bara, skrifa ljóð eða eitthvað.
Birta: Hver ætlar að kaupa það ljóð?
Eva: Þegiðu.

Birta: Hvernig ætlarðu að framfleyta fjölskyldunni? Hvernig ætlarðu að borga reikningana þína? Hvernig ætlarðu að borga hesthússpláss fyrir Pysjuna? Gæti ekki allavega verið ráð að sækja um atvinnuleysisbætur á meðan þú leitar?
Eva: Aldrei. Ég er ekki þessi týpa sem þiggur bætur.
Birta: Nú þú ert þá kannski þessi týpa sem safnar skuldum?
Eva: Þegiðu.
Birta: Eða þessi týpa sem þorir ekki að horfast í augu við raunveruleikann?
Eva: Heyrðu nú er nóg komið!
Birta: Jæja, hvaða týpa ertu þá?
Eva: Þessi sem bjargar sér.
Birta: Hvernig?
Eva: Ég finn leið. Ég finn alltaf leið.

Birta: Aldeilis ertu ótrúleg manneskja! Hvernig í fjáranum lenti ég í því að
þurfa að deila líkama með svona bullusterti?
Eva: Hef ég ekki séð um okkur hingað til?
Birta: Vissulega. Vissulega. Og hamingjan ein veit hvað það
fyrirkomulag á eftir að kosta okkur.

Best er að deila með því að afrita slóðina