Að læsa dyrunum

-Ég er ekki vond við þá sem mér þykir vænt um. Ekki viljandi allavega. En ég er vond við þá sem eru mér ekkert meira en bólfélagar, sagði ég.
-Af hverju?
-Af því að til þess eru þeir, sagði ég. Ég refsa þeim fyrir að vera karlmenn af því að þannig eru slík sambönd, bara tvær einmana manneskjur sem fá útrás fyrir þjáningu sína með því að kvelja hvor aðra.
-Þú mátt ekki vera vond við mig.
-Nei, ég verð ekki vond við þig. Ef ég vildi eiga þig sem bara bólfélaga, myndi ég tæta utan af þér fötin og taka þig hér og nú. Ég myndi gæta þess vandlega að halda þér í hæfilegri fjarlægð og þessvegna yrði ég yrði vond við þig. En mig langar bara að góð við þig og þess vegna verðum við að bíða aðeins því annars leggst ég bara rúst og grenja allan daginn á morgun, sagði ég. En mig langar samt.
-Þú færð ekkert hjá mér strax góða mín hversu mikið sem þig langar, þú verður bara að bíða, sagði hann.
-Ókei, ef þú ætlar að sjá um að hafa stjórn á þessu þá get ég áhyggjulaust æst þig upp úr öllu valdi, bara til að gá hvað ég kemst langt með þig.
-Þú stjórnar mér ekkert. Þú kemst ekki eitt né neitt með mig hvað sem þú reynir. Við getum kannski séð til eftir svona 6 mánuði.

6 mánuði! andartak hélt ég að honum væri alvara en hann var að grínast. Vona ég. Svo gott að vita af honum, sofandi í stofunni minni og síðustu orð kvöldsins fylgja mér inn í svefninn;
-Ég hverf ekki án skýringa. Ég veit alveg hvað höfnunarkennd er.

Já, hann veit það. Sennilega betur en ég og kannski verður þetta allt í lagi en ég hef svosem heyrt þessi orð áður. Samt er eitthvað alveg eins og það á að vera. Hann kom með rós og það þarf ekki endilega að merkja neitt sérstakt en það skiptir mig samt svo miklu máli. Hann les líka það sem ég skrifa og það hafa mínir kærastar og ektamakar ekki gert hingað til. Nema auðvitað maðurinn sem elskaði mig einu sinni fyrir löngu en það var nú fyrst og fremst af því að hann skrifaði sjálfur og vantaði samanburð.

Vakna að morgni við ofurlétt högg á hurðina og sprett fram úr.
-Ertu vön að læsa að þér?
-Nei.
-Hélstu að ég kæmi inn eða eitthvað?
-Nei, ég hélt það ekki, það hefði líka verið í lagi.
-Af hverju læstirðu þá?
-Ég veit það ekki. Ekki þín vegna, ég er ekki hrædd við þig eða neitt svoleiðis.

Þegar hann er farinn gref ég andlitið niður í sængina mína sem ilmar af hörundi hans og velti því fyrir mér hvað í fjáranum mér gekk til með því að læsa herberginu. Ég er laus við næturfælni. Yfirleitt sef ég við galopnar dyr og það er eingöngu fyrir MimmaSan sem ég læsi útihurðinni. (Af því að MimmiSan heldur að læstar dyr haldi keðjusagarmorðingjum í hæfilegri fjarlægð.) Ég veit ekki hvers vegna ég læsti og man ekki einu sinni eftir að hafa gert það. Ég hef samt ekki læst ósjálfrátt, það geri ég eingöngu á baðinu. Hvern fjandann ég var eiginlega að reyna að læsa úti? Óraunhæfar væntingar? Kvíðann yfir því að verða of háð honum of snemma? Yfirvofandi ástarsorg kannski?

Eða vonaði ég bara að hann vekti mig áður en hann færi að vinna? Vissi ég að hann kæmi til að strjúka hárið frá andlitinu á mér og hvísla; ég kem aftur, og vildi bara ómögulega sofa það af mér?

Best er að deila með því að afrita slóðina