Veit ekki alveg hvert stefnir

Eva: Úff, fjandinn sjálfur, hvað á ég eiginlega að elda?
Birta: Lasanja auðvitað.
Eva: Af hverju er það svona auðvitað?
Birta: Það er gott, einfalt, getur ekki mistekist, þarf ekki að standa yfir því.
Eva: Já en er það ekki að verða dálítið klisjukennt? Ég meina við eldum alltaf lasanja þegar einhver kemur í mat í fyrsta sinn.
Birta: Hann veit það ekki.
Eva: Nei en samt…

Birta: Hvað viltu gera? Elda eitthvað frumlegt kannski? Og fara á taugum yfir því að sósan sé of sölt eða bokkálið of mikið soðið?
Eva: Kannski finnst honum lasanja ekkert sérstakt.
Birta: Lasanja ER ekkert sérstakt, það er bara GOTT, það klikkar aldrei, þú ræður við það. Hann er ekki að koma til að fá eitthvað sérstakt heldur til að hitta þig, kynnast þér.
Eva: En heldur hann þá ekki að ég sé lasanja? Svona eitthvað pottþétt sem klikkar aldrei?
Birta: Nei fíflið þitt, það eru sem betur fer fáir sem halda að allt í veröldinni hafi einhverja æðri táknræna merkingu.
Eva: Ókei. höfum þá lasanja.

Birta: Kaupu líka rauðvín.
Eva: Æ, sleppum því.
Birta: Af hverju ættum við að sleppa því?
Eva: Ég kann ekkert að velja vín.
Birta: Taktu bara Torres.
Eva: Passar það með lasanja?
Birta: Það veit ég ekki, en okkur finnst það gott.
Eva: En við höfum ekkert vit á vínum. Kannski er Torres bara hundvont vín.
Birta: Hvað er eiginlega að þér? Ef þér finnst það gott þá hlýtur það að vera það.
Eva: En ef honum finnst það ekki?
Birta: Nú þá bara fær hann sér kók eða vatn eða eitthvað.
Eva: Kannski gaukurinn í ríkinu geti hjálpað mér…
Birta: Bíddu nú við, ætlaðirðu ekki að lofa honum að kynnast þér? Á nú að fara að búa til eitthvað front! Velja eitthvað sem þú þekkir ekki bara til að blekkja hann! Svei þér barasta!
Eva: Kannski finnst honum mikilvægt að kunna að velja vín. Kannski get ég lært að velja vín, áður en hann kemst að því að ég kann það ekki.
Birta: Satt segirðu. Hann horfir sennilega á allar konur sem hann sér og hugsar, hmmm… þessi er ok, skyldi hún kunna að velja rétt vín með pastanu?
Eva: Ókei, tökum þá Torres.

Birta: Abbababbababb!!! Hvaða erindi átt þú inn í þessa nærfatabúð góða mín?
Eva: Okkur vantar nærföt.
Birta: Nei!
Eva: Ókei, mig LANGAR í ný nærföt.
Birta: Þú átt við að þig langi að fara ÚR nýjum nærfötum.
Eva: Langar það kannski já en það er ekki þar með sagt að ég láti það eftir mér.
Birta: En þú ætlar samt að kaupa þau? Ný nærföt, sem enginn hefur séð þig í eða snert eða fundið lyktina af. Og þú ætlar bara að fara í þau en ekki úr þeim. Hver er nú að ljúga að sjálfri sér?

Eva: Mig langar!
Birta: Við vorum búnar að ákveða að bíða.
Eva: Mig langar samt!
Birta: Hver ræður hér góða mín, ég eða þú?
Eva: Hjartað gerir ekkert sem höfuðið tekur ekki þátt í, ef ég kaupi nærföt þá ert þú ábyrg.
Birta: Einmitt og þessvegna förum við heim núna. Beinustu leið.
Eva: Ókei, förum þá heim.

Best er að deila með því að afrita slóðina