Hugleiðing um mannleg listaverk

-Ég ætla nú ekkert á neitt flug strax, sagði ég. Enda veit ég svosem ekki hvort er nokkurt vit í að vera að hitta hann. Ég geri alveg eins ráð fyrir því að eftir viku verði ég búin að átta mig á því að hann sé algjör rugludallur sem ekkert er hægt að stóla á. Eða hann búinn að missa áhugann á mér, sem er reyndar líklegra. Við höfum sést heima hjá þér áður og honum líkaði ekki einu sinni vel við mig, hann sagði mér það sjálfur.

-Þú þarft ekki að vera hissa á því­. Þú ert nútí­malist Eva, fólk þarf að venjast þér til að læra að meta þig, sagði Keli.

Þannig er Keli. Tekst einhvernveginn alltaf að snúa öllu til betri vegar. Ég veit svosem ekki hversu mikið vit er í­ þessu hjá honum og vona að hann hafi rangt fyrir sér. Ég er ekkert sérlega hrifin af nútímalist sjálf. Ég hef haft 36 ár til að venjast sjálfri mér svo það segir nú ekki mikið þótt ég þoli mína eigin nærveru svona nokkurnveginn. Ef ég er eins og hver annar artífartí-uppskrúfaður-nýlórembings-performans er ég ekki hissa þótt ég nái ekki kontakt við almennilegar manneskjur. Má ég þá frekar biðja um Chagall. Því maður þarf ekki að venjast Chagall til að skilja hann. Því hann er fallegur og draumkenndur, í mjúkum litum og þægilegur en samt einhvernveginn aggressivur, óhlutbundinn og býr þó yfir einhverju stórfurðulegu samræmi sem maður botnar ekki almennnilega í en fílar samt. Eins og myndirnar hans hvísli að manni, fremur en að kalla;

Halló, kíktu aðeins betur á mig, þetta á ekki að ganga upp, svo af hverju finnst þér eins og þetta sé allt eins og það á að vera? Er ekki stórfurðulegt að þér skuli líða svona vel nálægt mér, þótt allt sé svona einhvernveginn upp í loft? Hvernig getur verið svona mikil kyrrð og ró yfir mynd sem er öll á hreyfingu? Hvernig getur bleikt verið eldur og svona mikil gleði í blámanum? Og hvar er eitthvaðið í mér sem truflar þig svona, sem fær þig til að horfa á mig aftur og aftur, sökkva inn í mig og komast samt ekki að niðurstöðu um hver hann er þessi undarlegi fleygur.

Keli er sonnetta. Grey strákurinn heldur að hann sé Kandinsky er það svo langt frá því. Kandinsky er óreiða, ósamræmi, kallar á mann; Hæ, horfðu á mig, er ég ekki spes? Komdu, ég skal skemmta þér, og maður veit svosem að maður getur treyst því. En Keli er ekkert í líkingu við Kandinsky. Keli er, sonnetta, hreinræktuð sonnetta. Alltaf sjálfum sér samkvæmur, alltaf viðeigandi, sýnir svo fullkomna hluttekningu hvort sem er í sorg eða gleði. Og maður veit alveg hvar maður hefur hann en samt kemur hann stöðugt á óvart, kemst alltaf að einhverri niðurstöðu sem er svo hrífandi og svo endanleg, sem gengur fullkomlega upp en manni hefði samt aldrei dottið í hug sjálfum. Eitthvað í fari hans sem skilur mann alltaf eftir með eitthvað svona -já, já einmitt!

Iss, ég er ekkert nútímalist. Artífartíliðið fílar mig allavega ekki. Ekki frekar en almennilega hringhendu. Ég segi kannski ekki að ég sé alveg jafn fyrirsjáanleg og hringhenda og ekki nærri jafn vel ort en nútímalist er ég ekki. Ætli ég sé í rauninni nokkuð annað en ómerkilegt klessuverk? Fingramálverk eða misheppnuð tilraun til súrrealísks kveðskapar.

Ég veit ekki alveg hvað ég er en Hollendingurinn fljúgandi verkar á mig, ekki ósvipað Chagall.

Best er að deila með því að afrita slóðina