Poppkorn

Er ég skotin í honum? Hvernig spyrðu? Geturðu nefnt mér eina ástæðu fyrir því að vera ekki skotin í honum? Ekki svo að skilja að ég sé á leið með að leggjast í einhverja geðbilun yfir því, ég verð léttskotin í öllum sem eru ekki annaðhvort á föstu eða beinlínis ógeðfelldir nema hvort tveggja sé. (Reyndar þykja mér afar margir beinlínis ógeðfelldir en ekki af því að þeir séu það í raun, heldur af því að ég er haldin eðlislægri mannfyrirlitningu sem beinist jafnt að báðum kynjum, börnum, fullorðnum, gemsunum þeirra og gæludýrunum.) Ég hef margsinnis orðið skotin í strákum án þess að það hafi haft nokkrar slæmar afleiðingar. Meðan ég læt það vera að mynda náin tengsl er þetta allt í lagi.

Og nú er ég sumsé stödd hérna og ætla ég að gera eitthvað í því? Vitanlega. Ég er nefnilega þannig manneskja. Ég þarf alltaf að gera eitthvað í málunum í stað þess að gera það eina sem er eitthvert vit í, nefnilega ekki neitt. Það eina rétta í stöðunni væri auðvitað að takmarka samskipti okkar eins og mögulegt er og leggja mig fram um að verða skotin í einhverjum öðrum. (T.d. doktornum mínum klára og skemmtilega sem ég ætla að giftast einhverntíma seinna þegar hann er búinn að verða sér úti um krakka eða tvo og ég nenni að gera hann ástfanginn af mér.) Auðvitað væri það skynsamlegast því viðfang „ponkulítið skotinn í honum“ óra minna er, þrátt fyrir að taka fulla ábyrgð á lífi sínu, beygður og barinn og brotinn og marinn, og ég á betra skilið en að verða ástfangin af manni sem hefur miklu meira en nóg með sjálfan sig. Ég þarf mann sem hefur lágmark af neikvæðri lífsreynslu í farteskinu, kann ekki að ljúga og heldur að lífshamingjan felist í því að vera góður við konuna sína.

Já ég er með plan, meira að segja þokkalega poppað plan og ég veit vel hvað þú hugsar:
-Dö, hún verður búin að sofa hjá honum fyrir jól.
En það er ekki rétt. Ég sef ekki hjá mönnum sem ég verð skotin í, bara af því að mig langar í drátt. Get fengið nóg af slíku annarsstaðar. Maður étur ekki tvö kg. af ósprengdu poppkorni og sets svo sjálfviljugur inn í örbylgjuofn, nei ef maður endilega vill þjást, þá gerir maður það vísindalega. Og það er það sem ég ætla að gera. Það er nefnilega svo hrikalega gaman að vera ponkulítið skotin í einhverjum og þjást svolítið vegna þess.

Ég ætla að treina það, fara hægt og rólega í gegnum öll stig skotsins og þjáningarinnar og komast yfir það án þess að leggjast í rúst. Ég ætla að gera það vísindalega. Ég ætla að finna mér stóra krukku og setja á hana rauðan miða með merkingunni „fullkominn“. Svo ætla ég að setja popmaísbaunir í krukkuna. Eitt korn fyrir hverja ástæðu sem ég get fundið til þess að vera skotin í honum. Það verða sennilega ca. 2 kg. af popmaís. Eitt korn geymi ég samt uppí skáp, við hliðina á neyðarsúkkulaðinu. Næst finn ég aðra krukku. Stóra. Risastóra. Ég set á hana grænan miða með merkingunni „kannski ekkert svo rosalega fullkominn“. Svo ætla ég að leggja mig fram um að finna á honum sem allra flesta galla. Í hvert sinn sem ég finn galla eða eitthvað sem mér gæti hugsanlega tekist að láta fara í taugarnar á mér, ætla ég að flytja eitt korn úr „fullkominn“ krukkunni, yfir í „kannski ekkert svo rosalega fullkominn“ krukkuna. Þegar eru jafn mörg korn í báðum krukkunum, ætla ég að fleka hann. Frammistaða hans í bælinu ræður því hvað ég geri við kornið sem ég geymi við hliðina á neyðarsúkkulaðinu.

Ef hann er hlýðinn og meðfærilegur fer það í „fullkominn“ krukkuna. Ef hann er stjórnsamur og kröfuharður fer það líka í „fullkominn“ krukkuna. Ef hann er blíður og indæll fer það í „fullkominn“ krukkuna. Ef hann er röff og töff fer það í „fullkominn“ krukkuna. Ef hann er feiminn og krúttlegur fer það í „fullkominn“ krukkuna og ef hann er djarfur og uppátækjasamur fer það í „fullkominn“ krukkuna. (Af þessari upptalningu má sjá hvað ég hef ákveðnar hugmyndir um það hvað ég vil í bælinu). Ef hann neitar að láta fleka sig næ ég í 3 aukakorn og set þau öll í „fullkominn“ krukkuna því að ég hef svo gaman af því að takast á við ögrandi viðfangsefni. Ef hann reynir alvarlega við mig áður en ég tæli hann, án árangurs, fara 3 korn í krukkuna með græna miðanum. Ef honum tekst að fá mig í bælið að fyrra bragði, set ég 7 korn í krukkuna með rauða miðanum, en hann þarf líka að vera skrattanum meira sjarmerandi til þess að það gangi upp. Ef hann gefur mér nákvæm mál af vininum, segir mér kvennafarssögur af sjálfum sér á meðan á forfæringu stendur eða krefst þess að ég fái raðfullnægingu gegn vilja mínum, þá fer kornið í skápnum hjá neyðarsúkkulaðinu, ásamt öllum þeim aukakornum sem ég hef hugsanlega þurft að grípa til, í „kannski ekkert svo rosalega fullkominn“ krukkuna.

Eftir þessa athöfn verður ekki lengur jafnt í krukkunum. Ef verða fleiri korn í „fullkominn“ krukkunni, held ég leiknum áfram þar til öll kornin eru komin í krukkuna með græna miðanum. Þá næ ég mér í heilt kg. af popmais í viðbót og held áfram að fylla „kannski ekkert svo rosalega fullkominn“ krukkuna. Ef ég verð samt skotin í honum ennþá þegar krukkan er orðin full, ætla ég að biðja hans. Maður á nefnilega aldrei að giftast neinum fyrr en maður er kominn með algert ógeð á honum en vill samt hafa hann hjá sér.

Ef verður meira í „kannski ekkert svo rosalega fullkominn“ krukkunni, eftir forfæringuna, ætla ég að poppa. Ég sprengi öll helvítis kornin úr báðum krukkunum. Svo ét ég þau hægt og rólega. Eitt í einu og finn hvernig þau hjaðna á tungunni. Ég ét þau ofan í mig hvert og eitt einasta. Bæði þau sem springa og líka þau sem springa ekki, heldur líta áfram út eins og lítil gyllt tár. Ég ét þau öll og svo ætla ég að þamba 3 lítra af volgu vatni, stinga fingri ofan í kok og æla þeim. Öllum. Ég ætla að æla, þar til ég er gjörsamlega tæmd. Þar til ekki eitt einasta gyllt tár, ekki einn einasti hjaðnaði poppkjarni, situr eftir í maganum á mér. Síðan ætla ég að sturta niður og halda áfram að hugsa upp nýjar aðferðir til að hræða doktorinn minn frá því að vilja nokkuð með mig hafa. Doktorinn minn sem er svo saklaus og hreinn og svo fallega innrættur að hann á örugglega eitthvað betra skilið en að verða hrifinn af konu, sem þrátt fyrir að taka fulla ábyrgð á sínu eigin lífi er þreytt og þvæld og þunglynd og spæld og hefur miklu meira en nóg með sjálfa sig.

Best er að deila með því að afrita slóðina