Spörfugl

Til er fólk sem samkvæmt öllum lögmálum ætti að vera krónískir geðsjúklingar, haldnir einkennilegu samkrulli af siðblindu, ofsóknaræði, þráhyggju, þunglyndi og veruleikafirringu, en reynist samt vera mun heilbrigðara en meðalmaðurinn. Það er áreiðanlega ekki algengt en ég er samt svo heppin að hafa kynnst nokkrum slíkum. Það er ómetanlegt.

Og nú held ég að það sé hugsanlegt að ég sé búin að finna enn einn slíkan gimstein. Auðvitað er líklegast að það sé óskhyggja en maður kemst ekki að því nema athuga málið. Ég veit ekki hvað það er sem veldur; ég er alls ekki neinn sérstakur mannþekkjari og ætti því kannski ekki að taka mark á því, en ég hef eitthvað svo mikla trú á því að hann sé virkilega heiðarlegur gagnvart sjálfum sér.

Maður lendir í rauninni sjaldan í fólki sem kemur óheiðarlega fram, nema þá óvart, af því að það er alltaf ljúgandi að sjálfu sér og þ.a.l. öðrum líka. Og fáir sem telja sig heiðarlega, hafa kjark til að horfast í augu við veruleikann og sjálfa sig.

Ísí dos itt, segja þeir og ég trúi því að nokkuð sé til í því. Þegar ég vaknaði í morgun leið mér eins og ég stæði með vinningslóttómiða í höndunum á Miklubrautinni, snjóstormur, vindhraðinn 20 m/sek, og ég ekki með neinn vasa og vissi að vindurinn hrifsaði miðann bráðum af mér. En mér líður ekki þannig lengur. Mér finnst þvert á móti að hvernig sem allt fer, þá verði samt allt í lagi. Mér liggur einhvernveginn ekkert á. Kannski bara af því að honum virðist ekki
liggja neitt á.

-Maður rífur ekki blómið upp með rótum og réttir það næsta manni. En kannski gefur maður afleggjara, sagði hann.
Og ég sem hiklaust treysti fólki fyrir öllu öðru en sjálfi mér, ég held ég sé bara alveg tilbúin til að taka dálítinn tíma í það að koma til afleggjurum.

Uppfært: Þegar ég las þennan texta hér að ofan nokkrum árum síðar hafði ég komist að þeirri niðurstöðu að fólk sem ætti samkvæmt öllum lögmálum að vera klikkað, er það venjulega.

Best er að deila með því að afrita slóðina