Inn að kviku

Ég ólst upp við stöðuga flutninga og er rótlaus eftir því. Ég hef ekki haldið sambandi við neina bernskuvini og ekki kynntist í raun engum í Flensborgarskóla. Var bara með kærastanum og vingaðist jú við vini hans. Ég var um tvítugt þegar ég hitti Kela fyrst en kynntist honum ekki almennilega fyrr en árið 1991. Við urðum perluvinir og hann er sá vina minna sem ég hef þekkt lengst. Lengst af höfum við búið í sitthvorum landshlutanum en nú búum við bæði í Reykjavík og höfum hist nokkuð oft síðasta árið.

Fyrir nokkrum vikum hringdi bróðir hann Spörfuglinn í mig, sagði að Keli hefði sagt sér að ég skrifaði rímuð ljóð og að hann ætti fullt af lögum, hvort ég hefði áhuga á samstarfi. Ég sagði honum, sennilega frekar stutt í spuna að hann mætti nota það sem ég ætti en ég væri ekki að fara að standa í því að skrifa texta fyrir aðra nema sjá fram á að þeir yrðu notaðir. Hann tautaði eitthvað um að vera í sambandi en síðan hef ég ekkert í honum heyrt. Ekki fyrr en í gærkvöld.

Það var samt ekki þannig að hann hefði samband við mig heldur var það Keli sem hringdi í mig og sagði að ég væri hálfviti. Sagði mér svo að koma í heimsókn og taka nokkur ljóð með mér. Ég mætti með möppuna og Óttar var þá á staðnum – með gítarinn.

Þegar ég fór var hann búinn að semja tvö lög við texta eftir mig.

Við ætlum að hittast á morgun.

Best er að deila með því að afrita slóðina