Matrix

Nú er ég búin að gera 6 tilraunir til að horfa á Matrix og mér finnst hún ennþá leiðinleg. Ég kemst dálítið lengra í hvert sinn, áður en ég sofna en ég er enn ekki búin að sjá endinn. Þessi mynd ætti að vekja áhuga minn en hún gerir það ekki. Kannski vegna þess að ég trúi því ekki að tilbúin persóna komist út úr blekkingunni og inn í raunveruleikann.

Nú orðið finnst mér raunveruleikinn hvort sem er ekkert sérlega spennandi, allavega ekki svo spennandi að ég leggi mig fram um að komast út úr skáldsögunni. Við höfum vissulega komist nálægt því, Gosi, Neó, ég sjálf og sennilega fleiri en það hefur ekki endilega skilað okkur sérstakri hamingju.

Stundum veit ég ekki hvor okkar er raunverulegri, ég eða sýndarveruleika-ég en það skiptir ekki öllu máli. Sú spurning brennur heitar á mér, hvaða fífl skrifaði mig eiginlega inn í þessa þrautleiðinlegu sögu. Því ekki hef ég skrifað mitt eigið líf, svo mikið er víst.

Í dag sett Keli fram alveg nýja kenningu um persónusköpun mína. Nefnilega þá að mig skorti ástríðu. Nokkuð frumleg kenning í ljósi þess að sögupersónur eru oftast ástríðufyllri en raunverulegt fólk. Það merkilega er að hann hefur rétt fyrir sér. Það er fátt í veröldinni sem mér finnst beinlínis áhugavert. Kannski af því að ég trúi ekki almennilega á raunveruleikann. Ekki fremur en skáldskapinn.

Og sagan er hvort sem er slöpp, ekki bara persónusköpunin heldur fléttan líka. Ef ég mætti sjálf skrifa næsta kafla, myndi ég nýta tækifærið og ljúka sögunni. Þá léti ég sjálfa mig hitta mann sem elskaði mig nógu heitt til að taka fyrir kverkar mínar og frelsa mig frá sögunni. Það er nefnilega fallegur dauðdagi í skáldskap, þótt hann sé það sennilega ekki í veruleikanum.

Það kemur þó líklega ekki til greina að ég fái að skrifa söguna sjálf en auk þess þekki bara einn mann sem elskar mig svo heitt og hann er því miður jafn mikill skáldskapur og ég sjálf. Aðeins raunverulegur maður getur frelsað ímyndaða persónu frá sögunni sem hún er skrifuð inn í. Og raunverulegir menn hafa tilhneiginu til að vera óþarflega heilbrigðir.

Best er að deila með því að afrita slóðina