Brjóstfríður

Hann hringdi í mig drafandi fullur og auðvitað fór ég til hans. Síminn hans hringdi í sífellu en hann vildi ekki svara. Sagði þetta vera snarruglaða konu sem hann hefði hitt á djamminu um síðustu helgi og hann nennti ekki að tala við. Vildi samt ekki slökkva á símanum fyrr en kl 12 því dyrasíminn er bilaður og það var mögulegt að barnsmóðir hans kæmi að sækja eitthvað sem börnin vantaði. 

Planið var að leyfa honum að sofna áður en ég færi. Hann hatar að sofna einn og ég skil það. Hann var hinsvegar ekki búinn að festa svefninn þegar við heyrðum umgang. Ég kveikti á náttlampanum og allt í einu stóð hún í herberginu, barmmikil kona á aldur við mig. Hún var dálítið drukkin en ekki svo að hún riðaði.

Henni brá greinilega en ég stóð upp og heilsaði henni með handarbandi. Stóð þarna nakin í svefnherbergi bólfélaga míns og heilsaði konu sem ég vissi ekki hvort væri kærasta, bólfélagi eða stalker. Haffi lét sem hann svæfi. Það var augljóst feik.
„Ég heiti Eva, hver ert þú?“ sagði ég þurrlega.

„María,“ stundi konan upp. „Ertu búin að vera hér lengi?“
„Kom um 9 leytið“ svaraði ég og byrjaði að týna á mig spjarirnar. „Ert þú kærasta eða ástkona eða átti hann kannski ekkert von á innrás?“

Ég var, og er enn, nokkuð viss um að hefði hann ekki átt von á innrás hefði hann risið upp og sagt henni að hypja sig en hann lét sem hann svæfi. Greinilega alls ófær um að takast á við þetta klúður sitt. Hún reyndi að vekja hann.

„Hann er ekki sofandi“ sagði ég, „meikar bara ekki að feisa þig.“ Svo gekk ég fram og fór að leita að peysunni minni. Hún kom á eftir mér grátklökk.

„Eruð þið saman“ sagði hún?
„Nei. Við sofum saman en við gerum ekkert annað saman og þekkjum ekki hvort annars vini. En þú?“
„Ertu með lykil að íbúðinni?“
„Nei. Ég á ekki einu sinni tannbursta hér.“
„Þú tekur þessu vel.“
„Ég vissi alveg að hann svæfi hjá fleiri konum en mér. Ég ef engan hug á að giftast honum. En mig langar nú samt að vita hvort hann átti von á þér.“
„Já. Eða sko við vorum búin að tala um að hittast. En svo svaraði hann ekki símanum.“
„Það var nú ekki skynsamlegt af honum fyrst þú ert með lykil“
„Ég er ekki með lykil“ sagði hún, „það var einhver maður sem hleypti mér inn niðri og íbúðin er ólæst.“

Við gengum út saman og hún hringdi á leigubíl. Ég sagði henni að það væri velkomið að keyra hana, ég var á bíl og hafði ekki drukkið dropa. Hún afþakkaði.

Ég bakkaði út úr stæðinu og um leið og ég ók út af stæðinu leit ég í baksýnisspegilinn.
Hún stóð í keng á stéttinni framan við húsið og hágrét.

Best er að deila með því að afrita slóðina