Gotland

Fjáreyjamállískan er náskyld íslensku. Í gærkvöld heimsóttum við vinafólk Birgis, mann sem er innfæddur Fjáreyingur og konuna hans. Fjáreyingurinn drykkfelldi kallar þröskuld treskjold og greinar grænar. Konan er myndlistamaður og kötturinn þeirra heitir Spin Laden.

Í dag tókum við ferjuna yfir á fjárjóðseyna og fórum á uppboð. Birgir keypti hellukamínu á 5000 kr íslenskar. Hundalappasófasett (sófi og 2 stólar) ásamt brjálæðislega flottu antikborði seldist á 14000 kr. íslenskar og kristalsljósakróna sem antiksafnarinn og Sigrún hefðu slegist um, fór á 1300 kr. íslenskar.

Kamínan komst ekki almennilega í bílinn svo Birgir tyllti bara skottinu með teygju og ók með það hálfopið allan daginn. Hann getur ekið á 120 km/klst á meðan hann les á vegakort, talar í gsm-síma og borðar súkkulaði. Ég ætti að vera skelfingu lostin í bíl með honum en er það samt ekki. Ég er farin að halda að einhver heilastöð í mér hafi orðið fyrir skaða, ég virðist ekki lengur hafa hæfileika til að óttast það sem flestu fólki stendur stuggur af.

Miðaldabærinn er stórkostlegur. Ekta borgarvirki með húsarústum, upprunalegri dómkirkju og þröngum hellulögðum götum. Á sumrin er haldin miðaldavika með burtreiðum og tilheyrandi húllumhæi. Örugglega mikil upplifun. Reyndar hefur þessi helgi öll verið heilmikil upplifun. Ekkert er í neinni líkingu við það sem mig óraði fyrir, ekki einu sinni Birgir. Samt hlakka ég óskaplega til að komast heim til mín og satt að segja hef ég saknað Haffa, af öllum mönnum.

Best er að deila með því að afrita slóðina