Á hjara veraldar

Og samt sem áður fórum við á heimsenda.

Það var einhver misskilningur í mér að bátsferðir væru ekki daglega. Eftir að hafa sjört fra Sjöbenhavn í gegnum smálenskar myndskreytingar Astrid Lindgrenbókanna, tókum við ferju á stærð við 2 Herjólfa yfir á stærri eyna og þaðan aðra ferju, alla leið á hjara veraldar.

Hér hefur tíminn staðið í stað. Næturklúbburinn á staðnum er prýddur rauðu neonskilti með áletruninni Elvis og auglýsingaskiltum frá 6. áratugnum, Birgir segir mér að þar sé svo til eingöngu spiluð tónlist Elvis Presley. Því miður er búið að loka, enda ferðamannatíminn liðinn, það hefði verið gaman að kíkja á stemninguna. Ein kjörbúð er á staðnum og skóli en alla aðra þjónustu þurfa íbúarnir að sækja yfir sundið. Náttúran er yndisleg. Kalksteinninn dregur í sig sólarljósið og endurvarpar ævintýralegri birtu, hér er undarlegt sampil skóglendis, lágvaxins kjarrs og hrjóstuga mela. Húsin flest í þessum fallega, gotneska stíl, kalksteinshús með háu risi, veggir hlaðnir úr flötum steinflísum og gamlar kornmyllur úti um allt, jafnvel þreskivél sem uxum var beitt fyrir stendur enn.

Við fórum í gönguferð í dag og heyrðum skothvell innan úr skóginum og sáum fugla fljúga upp í tugatali. Skömmu síðar gekk ungur piltur fram á okkur, glaðbeittur með byssu um öxl og blóðugar hendur. Sagðist hafa skotið héra og gekk niður í flæðarmálið til að skola á sér hendurnar.

Jörðin á Látri er með trjálundum eins og í ævintýrabókum. Hún býður upp á óþrjótandi möguleika. Ég sé fyrir mér hestaleigu, hótelrekstur, jafnvel setur fyrir lifandi spunaspil, bókmenntastefnu sem mætti kalla sýndarveruleikaraunsæi. Kalksteinshúsið er fallegt en þarfnast viðhalds og er óupphitað, blástursofn bjargaði mér í nótt en ekki gæti ég lifað við þessar aðstæður óbreyttar, ekki einu sinni á sumrin. Húsbúnaður starfsfólks samanstendur af fáeinum rúmfletum, 2-3 saman í herbergi og það væri vonlaust að bjóða íslensku starfsfólki upp á þessar aðstæður en hér eru aðrir staðlar og hingað kemur fólk til að vinna af ástríðu af því það elskar staðinn. Húsrými er þó nóg og umhverfið er yndislegt og ég er viss um að þegar Birgir er búinn að gera hlöðuna upp og færa veitingareksturinn þangað, innrétta stóra kalksteinshúsið og láta gera við þessar risastóru kamínur, þá verður þetta sannkölluð paradís.

Sjálfur er hann séntilmaður og það er alrangt hjá systur minni hinni æðrulausu að karlmenn sem ekki líta á konur sem kynlífsleikföng, séu annað hvort náttúrulausir eða hommar. Til eru menn sem eru einfaldlega kurteisir og geta vel hugsað sér félagsskap yngri konu, án þess að vera með dulbúið plan um að forfæra hana. Þessi maður er ekki perri, ekki frekar en bóksalinn glaðbeitti eða afi Bjarni.

Best er að deila með því að afrita slóðina